PSG og Toulouse mættust í kvöld í leiknum um ofurbikarinn í Frakklandi en þar mætast liðin sem urðu Frakklandsmeistarar og bikarmeistarar á síðustu leiktíð.
Fyrir leikinn var PSG sigurstranglegra liðið enda í efsta sæti frönsku deildarinnar en Toulouse í fallsæti Ligue 1.
Kang-In Lee kom PSG í 1-0 með marki strax á 3. mínútu leiksins og Kylian Mbappe lét sögusagnir um möguleg félagaskipti ekki trufla sig og bætti öðru marki við skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.
Í síðari hálfleik sigldi stjörnum prýtt lið PSG sigrinum í höfn. Leikmenn Toulouse reyndu hvað þeir gátu til að koma sér inn í leikinn en áttu ekki erindi sem erfiði.
Lokatölur í kvöld 2-0 og PSG því meistari meistaranna í Frakklandi þetta tímabilið. Þetta er í tíunda sinn á síðustu ellefu árum sem PSG hampar bikarnum.