„Ég held að ekki nokkur maður hafi tekið upp símann til að ræða við einn eða neinn á þeim vettvangi,“ segir Þórarinn í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta eru viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og tiltekinna félaga innan ASÍ. Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir hann einnig.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað leiðtoga þeirra félaga sem hafa ákveðið að vera í samfloti í viðræðum sínum við SA til fundar í dag.
Þetta eru Ragnar Þór Ingólfsson fyrir VR, Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir Eflingu, Vilhjálmur Birgisson fyrir Starfsgreinasambandið, Eiður Stefánsson fyrir Landssamband verslunarmanna og Hilmar Harðarson fyrir Samiðn.
Morgunblaðið hefur eftir Stefáni Vagni Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar, að hann trúi ekki öðru en að stjórnvöld og ríkið muni skoða það vel að eiga aðild að viðræðum „sem snúa að þjóðarsátt á vinnumarkaði“.
Stjórnvöld geti sótt í varasjóð til að taka á óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum en í sjóðnum séu 40 til 50 milljarðar króna.