Enski boltinn

Arteta segir spænska fjöl­miðla bulla: Ekki að fórna Arsenal fyrir Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta með Jürgen Klopp en þeir eru ekki báðir á förum úr ensku úrvalsdeildinni i sumar.
Mikel Arteta með Jürgen Klopp en þeir eru ekki báðir á förum úr ensku úrvalsdeildinni i sumar. Getty/Chris Brunskill

Spænskir fjölmiðlar héldu því fram í gærkvöldi að Mikel Arteta væri að hætta með Arsenal liðið eftir þetta tímabil en Sky Sports fékk það staðfest að það sé ekkert til í þeim fréttum.

Arteta hefur verið orðaður við Barcelona starfið eftir að Xavi tilkynnti um helgina að hann ætli ekki halda áfram sem þjálfari Börsunga eftir þetta tímabil.

Um tíma leit út fyrir að þetta yrði helgin þar sem Jürgen Klopp, Xavi og Arteta myndu allir tilkynna starfslok sín en það er ekki rétt.

Sky Sports fékk það staðfest að Arteta sé ekkert að hugsa um það að yfirgefa Arsenal í sumar.

Spænska blaðið Diario AS sagði fyrst frá því að Spánverjinn hefði látið sitt fólk vita af því að hann væri tilbúinn að yfirgefa Emirates til að taka við Barcelona liðinu.

Xavi gaf það út að hann myndi hætta með liðið í vor eftir að Barcelona tapaði 5-3 í spænsku deildinni á heimavelli á móti Villarreal. Eftir tapið er liðið ellefu stigum á eftir toppliði Girona.

Arteta er 41 árs gamall og tók við Arsenal liðinu af Unai Emery í desember 2019. Hann gerði liðið að bikarmeisturum 2020 og kom liðinu aftur í Meistaradeildina í ár efir sex ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×