Spænskir fjölmiðlar greindu í gær frá því að Arteta myndi hætta með Arsenal í vor og orðuðu hann við stjórastarfið hjá Barcelona. Xavi hættir með Katalóníuliðið eftir tímabilið.
Sky Sports fékk það staðfest í dag að ekkert væri til í fréttum af mögulegu brotthvarfi Artetas.
Spánverjinn blés svo hressilega á blaðamannafundi í dag og sagði fréttir gærdagsins þvætting.
„Þetta eru falsfréttir og mér er brugðið. Ég trúi þessu ekki. Þetta er ekki stutt með neinum heimildum,“ sagði Arteta.
„Ég er á réttum stað með réttu fólki og líður mjög vel. Ég nýt þess að vera á dásamlegri vegferð með þessu félagi og við eigum mikið verk enn óunnið. Samband mitt við stjórnina er sterkt. Hlutirnir gerast á eðlilegan hátt. Þegar rétti tíminn kemur ræðum við um samningsmál og finnum réttu leiðina til að takast á við það.“
Arteta tók við Arsenal í desember 2019. Hann gerði liðið að bikarmeisturum 2020 og kom liðinu aftur í Meistaradeildina í ár efir sex ára fjarveru.
Hinn 41 árs Arteta er uppalinn hjá Barcelona en spilaði aldrei fyrir aðallið félagsins. Á ferli sínum lék hann með Paris Saint-Germain, Real Sociedad, Rangers, Everton og Arsenal. Arteta var aðstoðarmaður Peps Guardiola hjá Manchester City áður en hann tók við Arsenal fyrir rúmum fjórum árum.