Eins og fréttastofa hefur áður greint frá þá tengist bilunin ekki eldgosinu sem nú stendur yfir.
„Mótvægisaðgerðirnar hafa skilað nokkuð góðum árangri,“ segir Guðjón um stöðu mála á vellinum eftir að heitavatnslaust varð í gær. „Ég hef ekki heyrt að farþegar hafi fundið mikil fyrir kuldanum en það sem við höfum verið að gera er að setja um blásara víðsvegar um flugstöðina og slökkva á loftræstikerfum,“ segir hann.
Heitavatnsleysið hefur ekki haft áhrif á flugáætlun á Keflavíkurflugvelli en vandinn sem steðjar að er tvíþættur og varðar annars vegar hitann í flugstöðinni og hins vegar afísingu flugvéla. Heitt vatn er notað við afísinguna.
Guðjón segir Isavia bera ábyrgð á hitanum í flugstöðinni og vel hafi gengið að bjarga málum hvað það varðar. Það séu hins vegar flugþjónustufyrirtækin sem sjái um afísingu en eins og fyrr segir hafi heitavatnsskorturinn að minnsta kosti ekki raskað flugi hingað til.
Greint hefur verið frá því að vonir standi til að heitt vatn komist aftur á í kvöld.