Enski boltinn

„Vitum að við þurfum að ná þeim“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Ten Hag og kollegi hans Unai Emery á hliðarlínunni í dag.
Erik Ten Hag og kollegi hans Unai Emery á hliðarlínunni í dag. Vísir/Getty

Erik Ten Hag var afar sáttur með sigur Manchester United á Aston Villa í kvöld en sigurinn heldur liði United inni í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

„Þetta er risastór sigur fyrir okkur. Við erum að komast nær og það var markmið dagsins, það var það sem við stefndum að og við náðum því. Ég er ánægður með hvernig við gerðum það,“ sagði Erik Ten Hag knattspyrnustjóri United eftir leikinn í dag.

Eftir sigurinn í dag er Manchester United sex stigum frá Tottenham sem situr í síðasta Meistaradeildarsætinu eins og er.

„Ég hugsa aldrei um neikvæða niðurstöðu. Ég reyni að vera jákvæður, við vitum að við þurfum að ná þeim og við erum ekki komnir þangað enn. Við erum í góðum takti og höldum því áfram.“

Manchester United náði forystunni í fyrri hálfleik með marki Danans Rasmus Höjlund en Aston Villa náði að jafna í þeim síðari.

„Ég er var sérstaklega ánægður með fyrstu tuttugu mínúturnar. Eftir það féllum við of mikið niður. Við áttum okkar augnablik í skyndisóknum en í stöðunni 1-1 þurftum við að berjast,“ en eftir jöfnunarmarkið var lið Aston Villa líklegra til að ná sigurmarki heldur en United.

„Þetta var of mikið eins og tennisleikur“

„Það var mjög mikil ákefð og maður sá hvað voru margir leikmenn orðnir þreyttir í lokin. Þetta var mjög opið og hefði getað dottið hvoru megin sem var.“

Scott McTominay var hetja United en hann skoraði sigurmark United í kvöld en það er áttunda deildarmark hans á tímabilinu.

„Scott, hann er frábær. Hann getur skorað mörg mörk, hann er alltaf að koma sér í stöður til að skora mörk. Við vorum í vandræðum og þetta var of mikið eins og tennisleikur. Við vorum alltaf að reyna að skora í stað þess að bíða eftir réttum stöðum. McTominay getur mætt í teiginn og skorað mörk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×