Fótbolti

Hlaut sex ára dóm fyrir smygl og forðast enn fangelsi fyrir að stinga frænda

Sindri Sverrisson skrifar
Quincy Promes lék með Hollendingum á EM 2021, ári eftir að hafa skipulagt stórfellt kókaínsmygl.
Quincy Promes lék með Hollendingum á EM 2021, ári eftir að hafa skipulagt stórfellt kókaínsmygl. Getty/Dmitriy Golubovich

Knattspyrnumaðurinn Quincy Promes, sem leikið hefur fimmtíu A-landsleiki fyrir Holland, var í dag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir aðild sína að kókaínsmygli.

Dómurinn bætist við eins og hálfs árs dóm sem Promes hlaut síðasta sumar fyrir að stinga frænda sinn í hnéð.

Hann hefur hins vegar ekki setið í fangelsi, og mætti ekki til dómsuppkvaðningar í dag, því hann hefur haldið sig í Rússlandi og er raunar enn að spila fótbolta, með Spartak Moskvu.

Promes, sem er 32 ára, hlaut eins og fyrr segir sex ára dóm vegna smygls á 1.350 kg af kókaíni, í lok janúar 2020. Um var að ræða tvær sendingar sem faldar voru í saltpokum, í gámaskipi sem kom til hafnar í Antwerpen í Belgíu frá Brasilíu.

Promes var dæmdur fyrir sinn þátt í að stýra innflutningnum og fjármagna hann. Af skilaboðum hans til annarra sem smyglinu tengdust mátti sjá að Promes hefði varið til þess 75.000 evrum.

Samkvæmt dómnum vildi Promes einfaldlega eignast meiri auðæfi en hann hafði þó gert sem atvinnumaður í fótbolta. Hann var á þessum tíma leikmaður Ajax í Hollandi en var áður hjá Sevilla á Spáni. Hann lék þar áður með Spartak Moskvu 2014-2018 og sneri svo aftur til Rússlands 2021, árið sem hann spilaði síðast fyrir Hollands hönd.

Promes hefur skorað sex mörk í sautján deildarleikjum fyrir Spartak í vetur. Samningur hans við félagið rennur út í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×