Tónlist

Úlfur Úlfur endur­gerði senu úr tón­listar­mynd­bandi Qu­een

Boði Logason skrifar
Úlfur Úlfur ætla að halda útgáfutónleika í Gamla bíói þann 5. apríl næstkomandi. 
Úlfur Úlfur ætla að halda útgáfutónleika í Gamla bíói þann 5. apríl næstkomandi.  Úlfur Úlfur

„Við höfum gert nokkur helvíti góð myndbönd með Magga Leifs en þetta er okkar besta verk hingað til, ekki spurning,“ segir Arnar Freyr Frostason annar af forsprökkum hljómsveitarinnar Úlfur Úlfur.

Vísir frumsýnir í dag myndband við lagið Myndi Falla af nýjustu plötu sveitarinnar, Hamfarapopp. Platan er fjórða plata rappdúettsins en hana skipa áðurnefndur Arnar Freyr og Helgi Sæmundur Guðmundsson.

Leikstjóri myndbandsins er Magnús Leifsson en hann á heiðurinn af eftirminnilegum myndböndum strákanna, meðal annars við lögin Tarantúlur, Brennum Allt og Bróðir.

Myndbandið er ansi frumlegt og fara þeir Arnar Freyr og Helgi í ódauðleg hlutverk Spaugsstofumeðlima, endurskapa senu úr Queen tónlistarmyndbandi, halda á Golden Retriever hundum í rúllustiga og á börnunum sínum á Hótel Holti.

Magnús Leifsson leikstýrir Arnari Frey og Helga Sæmundi í myndbandinu.Úlfur Úlfur

„Þarna eru mörg metnaðarfull skot og ótal vísanir í poppkúltúr sem áhorfendur geta dundað sér við að ná eða misskilja. Mér finnst við hitta nýjar taugar sem við höfum látið vera fram að þessu. Þetta er líka uppáhalds lagið mitt á plötunni, fyrsta lagið sem við sömdum fyrir hana og lagið sem varð einhverskonar viðmið fyrir restina,“ segir Arnar Freyr.

Þór Elíasson sá um kvikmyndatöku, Sigurður Eyþórsson klippti, Tinna Ingimars sá um gervahönnun, Brynja Skjaldar gerði búninga, Aron Martin Ásgerðarson gerði leikmynd og Undir sáu um tæknibrellur.

Þessa dagana eru Úlfur Úlfur að fylgja á eftir plötunni sem kom út í október og er myndbandið liður í því ferli. Næst á dagskrá eru útgáfutónleikar 5. apríl í Gamla bíói. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×