„Við erum mjög ánægðir með okkar leikmannahóp og þá leikmenn sem við höfum fengið inn í vetur og hvernig þeir hafa komið inn í okkar lið, umhverfi og starf,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi þegar litið var við á Skaganum í dag.
„Við erum mjög ánægðir með leikmannahópinn eins og hann er í dag og erum ekki að leita að neinum frekari styrkinugm. Við lítum svo á að við séum búnir að loka okkar leikmannahóp og klárir í að hefja Bestu deildina,“ bætir Jón við.
Ekki frágengið með Rúnar Má
Fyrrum landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson hefur mikið verður orðaður við ÍA en hann er fluttur á Skagann. Rúnar gekk undir aðgerð á nára í vetur og er enn að ná heilsu.
Jón Þór var spurður hvort skipti Rúnars væru ekki hreinlega frágengin.
„Það er þá spurning hvenær það verður tilkynnt. Þú ert að segja mér fréttir ef það er klárt. Það væri auðvitað bara stórkostleg viðbót við okkar góða leikmannahóp. Það er ekkert leyndarmál að við höfum unnið lengi í því að fá Rúnar Má til ÍA,“
„Hann er auðvitað fluttur til Akraness, það var fyrsta skrefið og við unnum aðeins með honum í hitteðfyrra sumar þegar hann æfði aðeins með okkur. Það er ekki nokkur einasta spurning að hvert einasta lið í deildinni myndi vilja styrkja sitt lið með leikmanni eins og Rúnari Má,“ segir Jón Þór.
Samkvæmt heimildum Vísis er aðeins tímaspursmál hvenær gengið verður frá samningum. Rúnar fari með ÍA í æfingaferð á næstu vikum. Skagamenn bíði með formsatriðin á meðan Rúnar er meiddur, þar sem hann er ekki enn fær um að standast læknisskoðun.
Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum að ofan.