Enski boltinn

Dæmdur til árs í fangelsi degi áður en hann lagði upp sigur­markið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ilias Chair er marokkóskur landsliðsmaður og leikmaður Queens Park Rangers.
Ilias Chair er marokkóskur landsliðsmaður og leikmaður Queens Park Rangers. Dylan Hepworth/MB Media/Getty Images

Ilias Chair, leikmaður QPR, var á föstudag dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsáras. Hann spilaði allan leikinn og lagði upp sigurmarkið fyrir Queens Park Rangers í 2-1 sigri í gær, laugardag, gegn Rotherham United. 

Ilias og bróðir hans Jaber Chair voru kærðir af vörubílsstjóra í Antwerp í Belgíu fyrir líkamsáras sem átti sér stað í sumarfríi þeirra árið 2020. Bræðurnir eru marokkóskir en ólust upp í Belgíu. Þeir réðust að bílstjóranum, sem kallaður er Neils T, með grjóthnullungum og höfuðkúpubrutu hann. 

Í dómnum segir að Neils T sé enn að glíma við afleiðingar höfuðhöggsins en hann höfuðkúpubrotnaði og missti meðvitund. Chair neitaði sök en myndbandsupptaka staðfesti að hann hefði slegið Neils í höfuðið.

Jaber var dæmdur til að greiða brotaþola 13.400 sterlingspund í skaðabætur. Ilias var dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar auk 12 mánaða á skilorði. Hann áfrýjaði dómnum til hæstaréttar og hefur enn leikheimild með QPR þar til hefur verið úrskurðað um það. 

Marti Cifuentes, þjálfari QPR, lét þetta mál ekkert trufla liðsvalið fyrir leik og stillti Ilias upp í byrjunarliðinu. Það borgaði sig heldur betur þegar hann lagði upp sigurmarkið á Chris Willock. 

Ilias Chair er 26 ára gamall og hefur spilað 224 leiki fyrir QPR frá komu sinni árið 2017. Hann hefur komið við sögu í 32 deildarleik hjá QPR á þessari leiktíð og komið með beinum hætti að tíu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×