Íshokkí verður seint talin friðsæl íþrótt og eins og þau sem fylgjast vel með þá er ákveðið sport – innan sportsins – að sjá menn grýta af sér hönskunum og láta hnefana tala. Það var allavega staðan í leik Rangers og Flyers en Rempe ögraði hinum 33 ára gamla Deslauriers fyrir leik og var ákveðið að gera upp málin snemma leiks.
Alls entist „bardaginn“ í 37 sekúndur áður en herlegheitin voru stöðvuð. Rempe féll á endanum á ísinn en hafði þó tekist að opna skurð á enni Deslauriers.
„Við vorum að grýta sprengjum. Hann er stríðsmaður en ég elska þetta,“ sagði Rempe eftir leik.
REMPE AMD DESLAURIERS DROP THE GLOVES pic.twitter.com/8aJvbo57Zs
— B/R Open Ice (@BR_OpenIce) February 24, 2024
Ekki nóg með það heldur tókst Rempe að skora sigurmark leiksins í 2-1 sigri þegar skot Barclay Goodrow fór af honum í netið. Var þetta fyrsta mark hins 21 árs gamla Rempe í NHL-deildinni.
„Líklega hefur enginn skorað ljótara fyrsta mark í sögu NHL en þetta er ótrúlegt, ég elska þetta,“ bætti Rempe við eftir leik.
Sigur Rangers þýddi að liðið hefur nú unnið tíu leiki í röð sem er félagsmet. Samkvæmt vefsíðunni Hokkí slagsmál lét Rempe hnefana alls tala 16 sinnum yfir tvö tímabil í AHL-deildinni (American Hockey League) áður en hann var kallaður upp í NHL-deildina.
Eftir enn einn sigurinn eru Rangers sem stendur efstir í Metropolitan-deildinni með 39 sigra í 58 leikjum.