Tomasson er danskur og verður fyrsti útlendingurinn sem þjálfar sænska landsliðið. Hann þekkir vel til í Svíþjóð en hann gerði Malmö að sænskum meisturum 2020 og 2021.
Síðast var Tomasson við stjórnvölinn hjá enska B-deildarliðinu Blackburn Rovers þar sem hann þjálfaði meðal annars Arnór Sigurðsson.
Hinn 47 ára Tomasson var einnig aðstoðarmaður Åges Hareide, núverandi landsliðsþjálfara Íslands, með danska landsliðið á árunum 2016-19.
Tomasson lék lengst af ferilsins í Hollandi en einnig með AC Milan. Hann varð bæði Evrópu- og Ítalíumeistari með liðinu. Tomasson lék 112 landsleiki fyrir Danmörku og skoraði 52 mörk. Hann er markahæstur í sögu danska landsliðsins ásamt Poul Nielsen.
Tomasson stýrir sænska landsliðinu í fyrsta sinn þegar það mætir Portúgal og Albaníu í tveimur vináttulandsleikjum í næsta mánuði. Hans fyrsta stóra verkefni verður svo Þjóðadeildin í haust.