Sigvaldi og félagar voru með bakið upp við vegg fyrir leik kvöldsins og þurftu á sigri að halda til að eiga möguleika á því að koma sér upp úr A-riðli Meistaradeildarinnar. Kielce gat hins vegar með sigri gulltryggt sæti sitt í 16-liða úrslitum.
Það voru heimamenn í Kielce sem voru sterkari í leik kvöldsins og eftir að hafa lent undir á upphafsmínútunum sneri pólska liðið leiknum sér í hag og leiddi 13-10 í hálfleik.
Í síðari hálfleik héldu heimamenn sér í öruggri fjarlægð og unnu að lokum átta marka sigur 31-23. Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Kielce sem situr í fjórða sæti A-riðils með 15 stig þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.
Sigvaldi skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad sem situr í sjöunda sæti með níu stig og á ekki lengur möguleika að koma sér upp úr riðlinum.