Fótbolti

Ís­lending­liðið búið að finna arf­taka eftir­manns Freys

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslendingalið Lyngby er komið með nýjan þjálfara.
Íslendingalið Lyngby er komið með nýjan þjálfara. Vísir/Getty

David Nielsen var í kvöld ráðinn þjálfari Lyngby. Hann tekur við starfinu af Magne Hoseth sem entist aðeins í 50 daga eftir að leysa Frey Alexandersson af hólmi.

Lyngby var í góðum málum þegar danska úrvalsdeild karla í knattspyrnu fór í sitt hefðbundna jólafrí undir lok síðasta árs. Á milli jóla og nýárs færð Freyr sig um set þegar honum bauðst að taka við belgíska félaginu KV Kortrijk.

Lyngby ákvað að leita til mannsins sem var á bakvið ótrúlegt Evrópuævintýri færeyska félagsins KÍ Klaksvík, Magne Hoseth. Eftir tvo tapleiki í röð var hins vegar tilkynnt að hann væri ekki rétti maðurinn fyrir Lyngby og Hoseth látinn taka poka sinn.

Nú fyrr í kvöld var svo tilkynnt að nýr maður væri kominn í brúnna. Sá er öllum hnútum kunnugur hjá Lyngby enda stýrði hann liðinu frá 2015 til 2017. Sá heitir David Nielsen og 47 ára gamall Dani.

Síðan hann stýrði Lyngby hefur hann þjálfað AGF og svo Kifisia FC í Grikklandi. Hann stoppaði stutt í Grikklandi en hann tók við Kifisia undir lok árs 2023 og var látinn fara í janúar.

Lyngby er með 20 stig að loknum 20 leikjum en liðið tapaði á dögunum fyrir botnliði Hvidovre. Andri Lucas Guðjohnsen, Kolbeinn Birgir Finnsson og Sævar Atli Magnússon leika með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×