Þægi­legt hjá City þrátt fyrir hæl­krók Orra

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson lítur til Mohamed Elyounoussi eftir að hafa lagt upp mark Norðmannsins með afar laglegum hætti.
Orri Steinn Óskarsson lítur til Mohamed Elyounoussi eftir að hafa lagt upp mark Norðmannsins með afar laglegum hætti. Getty/Catherine Ivill

Manchester City komst þægilega áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu með því að slá út dönsku meistarana í FC Kaupmannahöfn, samtals 6-2.

City vann 3-1 í kvöld rétt eins og í fyrri leiknum í Danmörku og hafði þegar gert út um leikinn í fyrri hálfleik, en öll mörk kvöldsins voru skoruð fyrir hlé.

Manuel Akanji og Julian Álvarez komu City í 2-0 á fyrstu tíu mínútunum í kvöld en mark Álvarez kom vegna skelfilegra mistaka Kamil Grabara í marki FCK, sem mistókst að grípa boltann. Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson fylgdist með af bekknum hjá FCK.

Annar landsliðsmaður Íslands, Orri Steinn Óskarsson, var hins vegar í byrjunarliði FCK og spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið á árinu.

Orri lagði upp eina mark dönsku meistaranna í kvöld með afar laglegri hælsendingu á Mohamed Elyounoussi, eftir tæplega hálftíma leik.

Erling Haaland skoraði hins vegar þriðja mark City fyrir hálfleik, og síðasta mark kvöldsins.

Manchester City og Real Madrid eru því komin áfram í 8-liða úrslit.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira