Konan hafði sakað Horner, sem gegnt hefur stöðu liðsstjóra Red Bull Racing síðan árið 2005, um óviðeigandi og stjórnandi hegðun.
Red Bull samsteypan setti af stað innri rannsókn á ásökunum konunnar og var niðurstaðan sú að láta málið niður falla. Nú hefur konan verið leyst frá störfum.
Talsmaður Red Bull samsteypunnar vildi lítið tjá sig um málið í samtali við BBC. Samsteypan gæti ekki tjáð sig um innanbúðar mál á borð við þetta.
Degi eftir að Red Bull ákvað að láta málið niður falla í kjölfar sinnar rannsóknar var skjáskotum af meintum skilaboðum Horner til konunnar, sem og myndum sem hann á að hafa sent henni, komið á blaðamenn, liðsstjóra í Formúlu 1 sem og hátt setta starfsmenn innan Formúlu 1 og alþjóða akstursíþróttasambandsins.
Konan er sögð hafa starfað í höfuðsstöðvum Red Bull Racing liðsins í Milton Keynes á Englandi. Sjálfur hefur Horner ávallt neitað sök í málinu en mikil ólga hefur skapast innan Red Bull Racing liðsins og voru farnar að heyrast raddir þess efnis að Horner ætti að stíga til hliðar.
Þrátt fyrir að hafa verið vikið úr starfi segir talsmaður Red Bull samsteypunnar að réttur konunnar, til að áfrýja niðurstöðu rannsóknarinnar, sé enn til staðar.
Fréttin verður uppfærð