Pétur, sem er bólstrari og rak Antik bólstrun á Langholtsvegi 126 í 30 ár og stundaði hestamennsku alla tíð, er algjörlega magnaður þegar kemur að því að heimsækja skíðabrekkur hvort sem það er hér heima eða erlendis.
„Það er bæði félagsskapurinn og svo náttúrulega er þetta ákaflega skemmtileg íþrótt og fjölskylduvæn. Þegar ég fór svo að eiga börn þá voru þau tekin með frá því að þau voru þriggja ára,“ segir Pétur aðspurður hvað sé svona skemmtilegt við það að vera á skíðum.
Pétur og fjölskylda skíðuðu mikið í Jósepsdal en þangað þurftu þau að ganga fjóra og hálfan kílómetra. Og kvöldvökurnar þar voru frábærar segir Pétur.
En þú ert orðinn 90 ára gamall, þetta er ótrúlega vel gert hjá þér.
„Já, og ég finn ekkert fyrir því. Nei, maður hefur aldrei gefið neina pásu á þessu, alltaf haldið áfram og svo var ég í hestamennsku í 49 ár, þetta hefur gefið lífinu gildi,” segir Pétur kátur og hress eins og alltaf.
Hversu mikilvægt er fyrir eldri borgara að hreyfa sig?
„Það er bara númer eitt, tvö og þrjú. Svo er ég í eldri borgara leikfimi líka og það hefur hjálpað rosalega mikið og syndi, bara aldrei að hætta,” segir Pétur.

Og Bryndís, dóttir Péturs er að sjálfsögðu stolt af þrautseigju og dugnaði pabba síns.
„Góð gen, góð gen, ég ætla að vona að ég verði svona,” segir hún og skellihlær.
Er hann alltaf svona jákvæður og hress?
„Já, já, hann er það, það þarf að hafa gaman að lífinu. Hann hefur nú lengi sagt á meðan volgt er í honum hlandið þá heldur hann áfram,” segir Bryndís og hlær enn meira.
