Fótbolti

Juventus mis­steig sig og Roma þarf bara að vinna einn í við­bót

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik gegn Roma fyrr á tímabilinu
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik gegn Roma fyrr á tímabilinu Juventus FC via Getty Images

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus gerðu 3-3 jafntefli við Inter Milan í afar kaflaskiptum leik. 

Juventus þurfti að sætta sig við aðeins eitt stig, þær eru í 2. sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Roma þegar þrjár umferðir eru eftir. Roma á leik til góða, fjóra leiki eftir, og getur með sigri í einhverjum þeirra tryggt sér deildarmeistaratitilinn. 

Inter byrjaði leikinn betur og komst yfir á 17. mínútu þegar Flaminia Simonetti steig á punktinn og skoraði af öryggi. Þá tók Juventus völdin, átti fyrst skot í stöng og jafnaði svo leikinn á 38. mínútu. 

Inter komst aftur yfir snemma í seinni hálfleik með marki frá Michela Cambiaghi eftir góðan undirbúning Henrietta Csiszar. 

Aftur brugðust gestirnir Juventus vel við, skoruðu tvö mörk með snöggu millibili og endurheimtu forystuna. 

Þær héldu forystunni lengi en tókst ekki að hirða stigin þrjú því Annamaria Serturini jafnaði metin á nýjan leik fyrir Inter á 86. mínútu. Sara Björk hafði farið af velli um tíu mínútum áður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×