Erlent

Skipið varð vélar­vana rétt áður en það hafnaði á brúnni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Neyðarboð var sent frá gámaflutningaskipinu rétt áður en það rakst á brúna.
Neyðarboð var sent frá gámaflutningaskipinu rétt áður en það rakst á brúna. AP Photo/Mark Schiefelbein

Gámaflutningaskipið Dali, sem rak á Francis Scott Key brúna í Baltimore í Bandaríkjunum í nótt, varð vélarvana rétt áður en það hafnaði á einum brúarstólpanna. Ríkisstjóri Maryland segir að neyðarkall hafi verið sent út frá skipinu í aðdragandanum, sem hafi bjargað lífum.

Dali hafnaði á brúarstólpa Francis Scott Key brúarinnar klukkan hálf tvö að staðartíma í nótt með þeim afleiðingum að brúin hrundi í Patapsco-ána. Sjö bifreiðar, sem voru á brúni, lentu í ánni. Í þeim voru átta menn, sem allir eru taldir hafa verið að vinna við viðgerðir á brúnni. 

Tveimur hefur verið bjargað og er annar þeirra illa slasaður. Viðbragðsaðilar leita enn að sex og hafa kafarar meðal annars tekið þátt í leitinni. 

Leit stendur enn yfir að sex verkamönnum, sem voru við vinnu á brúnni þegar hún hrundi.AP Photo/Matt Rourke

Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins bendir frumrannsókn til þess að um hræðilegt slys sé að ræða. Ekkert bendi til hryðjuverks. Haft er eftir Wes Moore, ríkisstjóra Maryland, að skipið hafi verið á mikilli hraðferð áður en það hafnaði á brúnni og að skipstjórinn hafi sent út neyðarboð en að skipið hafi verið á of mikilli siglingu til þess að honum tækist að afstýra árekstrinum. 

Með neyðarkallinu hafi skipstjóranum hins vegar tekist að koma í veg fyrir að fleiri bílar færu út á brúna, sem hefði getað leitt til enn meiri mannskaða. 

„Þessir menn eru hetjur, þeir björguðu mannslífum í nótt,“ sagði Wes Moore á blaðamannafundi síðdegis.


Tengdar fréttir

Segja minnst sjö bíla hafa fallið í ána

Tveimur hefur verið bjargað úr Patapsco-ánni í Baltimore í Bandaríkjunum eftir að brú yfir hana hrundi í nótt. Talið er að minnst sjö bifreiðar hafi hafnað í ánni en óvíst er hversu margir voru í bílunum.

Leita fólks í ánni eftir að brúin hrundi

Viðbragðsaðilar leita nú fólks í Patapsco-ánni, sem rennur í gegn um Baltimore í Bandaríkjunum. Talið er að nokkrir bílar hafi hafnað í ánni þegar Francis Scott Key brúin hrundi í kjölfar þess að fraktskip sigldi á hana í nótt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×