Sport

Ís­lensku stelpurnar Norðurlandameistarar í fim­leikum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir Lentu í tveimur efstu sætunum í fjölþraut.
Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir Lentu í tveimur efstu sætunum í fjölþraut. Fimleikasamband Íslands

Íslenska kvennalandsliðið í fimleikum tryggði sér í dag Norðurlandameistaratitilinn í liðakeppni á NM sem fór fram í Osló í dag.

Íslensku stelpurnar fengu samanlagt 147,349 stig í liðakeppninni og nægði það til sigurs. Noregur hafnaði í öðru sæti með 144,097 stig og Danmörk í því þriðja með 141,165 stig.

Hildur Maja Guðmundsdóttir fór fyrir liði Íslands og varð efst allra í fjölþraut með 49,366 stig. Thelma Aðalsteinsdóttir varð önnur með 49,066 stig og Margrét Lea Kristinsdóttir sjöunda með 47,183 stig.

Þá hafnaði Ísland í þriðja sæti í karlaflokki með 237,850 stig, en þar báru Norðmenn sigur úr býtum með 242,150 stig. Svíar tóku silfur með 238.600 stig.

Í karlaflokki var Valgarð Reinharðsson efstur Íslendinga í fjölþraut með 80,100 stig, en hann endaði í fjórða sæti. Mart­in Bjarni Guðmunds­son varð átt­undi með 76,550 stig og Dag­ur Kári Ólafs­son ell­efti með 75,550 stig.

Íslensku keppendurnir fá svo tækifæri til að næla í fleiri verðlaun á morgun þegar úrslit í einstökum áhöldum fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×