Fréttamaður slóst í för með Árna Ómari Árnasyni varðstjóra hjá slökkviliðinu, sem stýrði körfunni upp í hæstu hæðir - 45 metra nánar tiltekið. Gömlu körfurnar komust upp í um 34 metra hæð og Árni segir nýju bílana því mikla búbót.
Bílarnir eru notaðir við björgunarstörf, til að mynda þegar fólki er bjargað af svölum brennandi húsa. Eðli málsins samkvæmt eru þeir sem koma upp í körfurnar því gjarnan í mikilli geðshræringu.
„Að sjálfsögðu, þetta eru þeirra verstu stundir og að segja einhverjum að labba niður stigann í þrjátíu fjörutíu metrum er ekki fyrir hvern sem er, sama hversu illa staddur þú ert,“ segir Árni.
Ert þú lofthræddur?
„Nei.“
Hefur aldrei verið?
„Nei.“
Svipmyndir frá deginum, viðtalið við Árna í 45 metra hæð og viðtal við Jón Matthías Viðarsson slökkviliðsstjóra inni í öðrum nýju bílanna (þó á jafnsléttu, eða því sem næst) má horfa á í frétt Stöðvar 2 hér fyrir ofan.