„Vá maður, ég er bara svona ennþá að melta þetta. Gerðist þetta, unnum við. Við setjum upp kerfi fyrir snöggt skot með möguleika á sniðskoti, alley up eða þrist. Ég er gjörsamlega búinn á því, ég skal bara viðurkenna það,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, hrærður og stoltur að leik loknum.
„Þetta er búið að vera gjörsamlega frábær sería og það er synd að annað liðið þurfi að detta út. Mig langar að þakka Þórsurum kærlega fyrir rimmurnar. Það var skrifað í skýin að þetta færi í oddaleik og að vinna þetta svona fyrir framan kjaftfulla Ljónagryju er gjörsamlega geggjað,“ sagði Benedikt enn fremur.
Aðspurður um komandi einvígi við Val í undanúrslitum var fátt um innihaldsrík svör hjá Benedikti: „Ég er ekki kominn svona langt. Ég er ekki farinn að hugsa neitt um seríuna við Val. Þú getur heyrt í mér í hádeginu á morgun þegar ég vakna og spurt mig um Valsarana,“ sagði þjálfarinn léttur.