Enski boltinn

Arteta segir að Gabriel Jesus sé ekki á förum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Jesus spilar að öllum líkindum áfram með Arsenal.
Gabriel Jesus spilar að öllum líkindum áfram með Arsenal. Vísir/Getty

Gabriel Jesus verður áfram leikmaður Arsenal á næsta tímabil ef marka má orð knattspyrnustjórann Mikel Arteta.

Arteta ræddi framtíð brasilíska framherjans á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni en leikurinn hefst nú í hádeginu.

Fréttir bárust af því fyrr í vikunni að Arsenal væri tilbúið að hlusta á tilboð í þennan 27 ára leikmann en Jesus á þrjú ár eftir af samning sínum við félagið.

Jesus hefur skorað 8 mörk í 33 leikjum í öllum keppnum á þessari leiktíð. Hann hefur hins vegar glímt við hnémeiðsli og fór í aðgerð í janúar. Hann talaði um það í síðasta mánuði að hann myndi ekki hvenær hann spilaði fótbolta síðast verkjalaus.

Kai Havertz hefur eignað sér framherjastöðuna í fjarveru Gabriel Jesus en það þýðir ekki að Arteta vilji ekki halda Brassanum.

„Ég veit ekki hvaðan þessar fréttir eru að koma. Það eru engin plön um það að leyfa honum að fara,“ sagði Mikel Arteta. ESPN segir frá.

„Ég myndi elska það að halda honum. Hann veit það. Félagið styður þetta líka. Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur, bæði innan sem utan vallar. Hann gerir okkur betri og við viljum halda honum,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×