Atli Þór Jónasson kom HK yfir á 27. mínútu, með skoti utan teigs sem fór framhjá Pálma Rafni Arinbjörnssyni, sem lék sinn fyrsta leik í efstu deild hér á landi. Atli vann svo boltann af Pablo Punyed á vallarhelmingi Víkings og kom honum á Magnús Arnar Pétursson sem tók bara á rás gegn miðvörðum Víkings, og skoraði frá vítateigslínunni, 2-0 fyrir HK.
Aron Elís Þrándarson minnkaði muninn með skalla á 58. mínútu en tilraunir Víkinga til að jafna báru ekki árangur og í blálokin nýtti Arnþór Ari Atlason sér mistök Víkinga til að skora þriðja mark HK og innsigla sigurinn.
Á Lambhagavelli var gríðarlegt fjör á tæplega tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik, þegar Fram vann Fylki 2-1.
Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom Fylki yfir eftir hálftíma leik, með skoti sem fór af varnarmanni og lak í netið.
Framarar voru hins vegar fljótir að jafna sig og fengu víti strax í kjölfarið, en Ólafur Kristófer Helgason varði vítaspyrnuna frá Guðmundi Magnússyni.
Skömmu síðar náði Haraldur Einar Ásgrímsson hins vegar að jafna metin með frábærri vippu af stuttu færi, eftir sendingu frá Fred. Guðmundur skoraði svo sjálfur sigurmarkið á 38. mínútu, með skalla.
Í Garðabæ vann Stjarnan 4-1 sigur gegn ÍA þrátt fyrir að lenda undir.
Hinrik Harðarson kom ÍA yfir snemma leiks en Stjarnan jafnaði á 28. mínútu þegar Emil Atlason, markakóngur mótsins í fyrra, skallaði boltann í netið og skoraði sitt fyrsta mark í sumar.
Í seinni hálfleik skoraði Stjarnan svo þrjú mörk en þau gerðu Róbert Frosti Þorkelsson, Óli Valur Ómarsson og Guðmundur Baldvin Nökkvason, sem nú hefur skorað í þremur leikjum í röð.
Á Akureyri gerðu KA og KR svo 1-1 jafntefli, þar sem rauða spjaldið sem Guy Smit, markvörður KR, fékk vakti mikla athygli.
Rauða spjaldið og mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan, en Atli Sigurjónsson gerði mark KR og Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði fyrir KA. KR fékk einnig vítaspyrnu snemma í leiknum en Steinþór Már Auðunsson náði að verja spyrnu Benonýs Breka Andréssonar.