Auk þess að innkalla bóluefnið Vaxzevria skilaði AstraZeneca inn markaðsleyfi þess í Evrópu. Lyfjastofnun Evrópu tilkynnti í gær að efnið hefði ekki lengur markaðsleyfi í álfunni.
Í tilkynningu vísaði fyrirtækið til mikils framboðs á nýrri bóluefnum gegn ýmsu afbrigðum Covid-19 sem hefði dregið mjög úr eftirspurn eftir Vaxzevria. Fyrirtækið hafi ekki haft tekjur af bóluefninu frá því í apríl í fyrra.
Bóluefni AstraZeneca var á meðal þeirra fyrstu gegn nýju afbrigði kórónuveirunnar sem olli heimsfaraldri árið 2020. Um þremur milljörðum skammta af bóluefninu var dreift eftir að fyrsti skammturinn var gefinn í Bretlandi í janúar 2021, að sögn CNN-fréttastöðvarinnar.
Bjargaði milljónum mannslífa
Þrátt fyrir að bóluefnið hafi almennt verið metið öruggt og gagnlegt kom í ljós sjaldgæf en alvarleg aukaverkun sem var hætta á blóðtappamyndun. Hópur ríkja hætti notkun bóluefnisins tímabundið. Reuters-fréttastofan segir að fyrirtækið hafi viðurkennt í dómsmálum að sjaldgæfar hliðarverkanir bóluefnisins hafi meðal annars verið blóðtappar og fækkun blóðflaga.
Í yfirlýsingu sinni sagðist AstraZeneca stolt af því að bóluefnið hafi átt þátt í að binda enda á heimsfaraldurinn sem olli milljónum dauðsfalla.
Catherine Bennet, forstöðumaður smitsjúkdómafræðideildar Deakin-háskóla í Ástralíu, segir við The Guardian að bóluefni AstraZeneca hafi reynst heimsbyggðinni mikilvægt, sérstaklega í fyrstu viðbrögðunum við faraldrinum. Það hafi þó verið hannað fyrir upphaflegt afbrigði veirunnar og nýrri bóluefni nái utan um seinni tíma afbrigðin.
„Það hefur bjargað milljónum mannslífa og því skyldi ekki gleyma,“ segir Bennet.