Fótbolti

Katla með tvennu í Íslendingaslag

Sindri Sverrisson skrifar
Katla Tryggvadóttir er að gera góða hluti með Kristianstad á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennsku.
Katla Tryggvadóttir er að gera góða hluti með Kristianstad á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennsku. kdff.nu

Katla Tryggvadóttir var afar áberandi í 4-2 sigri Kristianstad á Örebro í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Katla skoraði tvö mörk í leiknum en það fyrra gerði hún þegar hún jafnaði metin með góðu skoti úr teignum á 11. mínútu, sem sjá má hér að neðan.

Hlín Eiríksdóttir átti sinn þátt í fyrsta markinu og var ógnandi á hægri kantinum hjá Kristianstad. Katla kom liðinu svo í 3-1 með sínu öðru marki á 26. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Kristianstad komst svo í 4-1 en heimakonur minnkuðu muninn seint í uppbótartíma.

Guðný Árnadóttir kom inn á sem varamaður hjá Kristianstad á 60. mínútu.

Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Katla María Þórðardóttir voru báðar í byrjunarliði Örebro og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir kom inn á á 66. mínútu.

Eftir leiki dagsins er Kristianstad núna með níu stig úr fimm leikjum, í 4. sæti deildarinnar, en Örebro er eina liðið sem enn er án stiga. Hammarby er efst með fullt hús stiga og Rosengård getur jafnað þann árangu rmeð sigri gegn Djurgården á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×