Lífið

„Ég hef aldrei lent í öðru eins“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Ester hefur starfað hjá Bónus í yfir þrjá áratugi og er með „Bónushjarta“ að eigin sögn.
Ester hefur starfað hjá Bónus í yfir þrjá áratugi og er með „Bónushjarta“ að eigin sögn. Vísir/Vilhelm

Ester Harðardóttir, starfsmaður Bónus til þriggja áratuga var ein af þeim sem tilnefnd voru sem maður ársins 2023. Atburðarásin sem leiddi til þess var vægast sagt kostuleg og skapaðist í kjölfar þess að Bónus hafnaði sölu á bókinni Þriðja vaktin. Ester lenti óumbeðin í fjölmiðlastormi en hún tók fjaðrafokinu þó með stóískri ró.

Mörgum þykir vænt um grísinn

Ester er ein af þeim sem hafa starfað hjá Bónus nánast frá upphafi og ljóst er að hún ber mikla hlýju til fyrirtækisins.

„Ég segi alltaf að ég sé með Bónushjarta,“ segir hún brosandi.

„Við erum nokkur „þessi gömlu“ sem höfum starfað hvað lengst innan fyrirtækisins og höfum upplifað ýmislegt í gegnum árin. Við myndum svona lítinn og þéttan kjarna.“

Þegar hún hóf störf í bókhaldinu árið 1991 var uppbyggingin gífurlega hröð hjá fyrirtækinu; þeir feðgar Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson höfðu þegar opnað fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu og fljótlega bættust við sú fimmta og sjötta. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Það var ótrúlega spennandi að koma inn á þessum upphafsárum og vera þáttakandi í þessari uppbyggingu. Og það var ofboðslega gaman að vinna með honum Jóhannesi. Hann var kanski ekki allra en í mínum augum var hann alveg yndislegur maður; góður vinur og með stórt hjarta. Alltaf boðinn og búinn til að hjálpa,“ segir hún.

„Það sem mér finnst skipta svo mikla máli eru þessi gildi; að bjóða sama lága verðið um allt land og bjóða upp á lægsta mögulega vöruverð fyrir neytendur. Þetta mottó, sem kom frá þeim feðgum Jóhannesi og Jóni Ásgeiri hefur haldið sér öll þessi ár. Það hefur aldrei verið hnikað frá því.“

Hún segir skemmtilegt að sjá hvað mörgum þyki vænt um Bónusgrísinn svokallaða. Það kom bersýnilega í ljós árið 2021 þegar grísinn fékk yfirhalningu og var færður í nútímalega horf. Sitt sýndist hverjum.

„Sumir voru ánægðir en svo voru margir sem voru mjög óánægðir með þetta.Það var dálítið merkilegt að sjá hvað sumir höfðu sterkar skoðanir á þessu, eins og hvernig augun á nýja grísnum voru. En það er greinilegt að það þykir mörgum vænt um þennan litla grís! “

Það eru ófáir Íslendingar sem hafa byrjað starfsferilinn á kassa í Bónus. Ester hefur fylgst með mörgum þeirra.

„Og ég hef tekið eftir því að ungt fólk sem hefur byrjað í Bónus og enst þar í lengri tíma er eftirsótt af þeim fyrirtækjum sem stunda viðskipti við okkur. Þetta er líkamleg vinna, og þú lærir að vinna. Ef þú endist í Bónus þá þýðir að það að þú ert duglegur starfskraftur. Svo er alltaf möguleiki á að vinna sig upp innan fyrirtækisins,”segir Ester og nefnir dæmi Gunnar Auðunn Jónsson, sem byrjaði á kassa sem unglingur og er í dag verslunarstjóri Bónus á Egilsstöðum, einungis 23 ára gamall. “Langflestir verslunarstjórar hjá okkur hafa byrjað “á gólfinu” og unnið sig síðan upp.“

Ester hefur séð um velja bókatitla fyrir Bónus alveg frá byrjun.Vísir/Vilhelm

Ekki allar bækur sem ná inn

Eitt af þeim verkefnum sem Ester hefur sinnt hjá Bónus undanfarin 33 ár er að velja þær bækur sem boðnar eru til sölu í verslunum Bónus fyrir jólin, og sömuleiðis þær kiljur sem seldar eru á sumrin.

Íslendingar hafa löngum verið taldir bókaþjóð en aukin samkeppni um afþreyingu hefur engu að síður skilað sér í minnkandi bóksölu undanfarin ár. Ester hefur óneitanlega orðið vör við þær neyslubreytingar sem hafa orðið á bókamarkaðnum.

„Bókin stendur ennþá, og er alltaf sígild gjöf. En hún er engu að síður á undanhaldi, við sjáum það alveg. Sem er mjög leiðinlegt, finnst mér. Barnabækurnar hafa haldið sér að mestu leyti. Fallega myndskreyttar og eigulegar barnabækur eru auðvitað alltaf klassískar.“

Líkt og Ester bendir á skipta útgefnir bókatitlar mörg hundruðum fyrir hver jól og umfangið er gífurlega mikið.

„Við höfum séð það í gegnum tíðina að það eru ákveðnar bækur sem fólk kaupir, aftur og aftur. Það er mikið af titlum sem eru gefnir út sem koma ekki inn á borð til okkar. Bóksalarnir sem eru búnir að þekkja okkar hætti í mörg ár vita vel að það er ekki hægt að koma með allt til okkar. Sumar bækur eiga erindi hjá okkur, aðrar, sértækari bækur, eiga frekar heima í bókabúðum.“

Óvænt atburðarás

Í desember síðastliðnum dróst nafn Esterar óvænt inn í umræður á samfélagsmiðlum og fréttir á vefmiðlum. Hófst það með því að Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur og umsjónarmaður Karlmennskunar birti færslu á Instagram og gagnrýndi Bónus harðlega fyrir að hafa hafnað því að selja bókina Þriðja vaktin – jafnréttishandbók heimilisins, sem hann ritaði ásamt eiginkonu sinni Huldu Tölgyes.

Í færslunni hélt Þorsteinn því fram að bókinni hefði verið hafnað af „tilfinningalegum og huglægum ástæðum en ekki málefnalegum ástæðum.“ Hann birti jafnframt nafn Esterar og hvatti þúsundir fylgjendur sína til að senda á hana tölvupóst og krefja hana um að selja bókina í versluninni.

„Þetta var allt saman svo skrítið og fáránlegt. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Að fara í vinnuna einn daginn, segja nei og fá svo þessi svakalegu viðbrögð,“ rifjar Ester upp.

Hún kveðst einungis hafa fengið tvo pósta frá fylgjendum Þorsteins; í öðrum þeirra vildi viðkomandi einungis vita hvort bókin væri einhvers staðar fáanleg.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus ræddi við fréttastofu Vísis á sínum tíma þar sem hann sagði málið vera einfalt og að ákvörðunin hefði ekkert með tilfinningar Esterar að gera. Bónus gæti einungis tekið inn takmarkaðan fjölda af bókum og vanda þyrfti valið; hlusta á útgefendur og með hverju þeir mæltu. Þá sagði hann að ummæli Þorsteins dæmdu sig sjálf.

„Hann kaus að fara þessa leið og gera þetta með þessum hætti. Það er bara hann. Ég stend bara með Ester,“ sagði Guðmundur jafnframt í samtali við fréttastofu.

Fjölmargir tjáðu sig um málið á samfélagsmiðlum. Snorri Másson ritstjóri var einn af þeim sem gerðu stólapgrín að málinu og sagði að „með fullri virðingu fyrir Ester í Bónus væru aðrir líklegri til þess að halda lífi í ævafornri bókmenningu Íslendinga.“

Þá sagði hann aðför Þorsteins vera „tilraunir aktívista til sveigja þá vammlausu skrifstofukonu til hlýðni.“

Að lokum fór svo að Þorsteinn birti færslu á Facebook þar sem hann bað Ester afsökunar á að hafa blandað henni persónulega inn í málið og sýnt í leiðinni  „karllægt yfirlæti,“eins og hann orðaði það. Hann væri í grunninn karlremba og liti á sig sem karlrembu í bataferli. Þá bauðst hann einnig til að senda Ester eintak af bókinni ef hún hefði áhuga.

Ester tók hins vegar meðvitaða ákvörðun um að svara engu og halda sér fyrir utan umræðuna. Hún sér ekki eftir því í dag og aðspurð segist hún ekki hafa þegið umrædda bókagjöf frá Þorsteini. Það hafi hins vegar verið sérstakt að lenda óumbeðin í slíkum fjölmiðlastormi.

„Vinir mínir sem fóru á sýninguna hjá Ara Eldjárn sendu mér snöpp af hlutanum þar sem hann var að gera grín að þessu, það var mjög sérstakt. Ég var samt ekkert að kippa mér upp við þetta, þannig séð. Það var ekki verið að gera grín að mér eða neitt þannig. Ég var alveg réttu megin.“

Hún segist líka hafa tekið eftir því að langflestir sem tóku þátt í umræðunni á sínum hafi áttað sig fyllilega hversu fáránlegt þetta var, það er að segja fjaðrafokið sem skapast hafði.

„Maður sá það alveg greinilega, fólki fannst þetta fyrst og fremst bara fyndið. Þetta var bara orðið einn stór djókur. Og á endanum fann ég nú bara til með honum Þorsteini, að hafa komið sér í þessa stöðu.“

Ester lýsir sem venjulegri úthverfakonu úr Árbænum,Vísir/Vilhelm

Súrrealískt að vera tilnefnd sem maður ársins

Það má segja að málið hafi náð ákveðnum hápunkti þegar Ester var ásamt níu öðrum tilnefnd sem maður ársins af hlustendum Rásar 2 og lesendum RÚV. Á samfélagsmiðlum varð til myllumerkið #ÉgstyðEster og var fólk hvatt til að standa með þolendum og senda eineltis-og nethrottum skýr skilaboð með því veita Ester sitt atkvæði.

„Þá fékk ég nú bara hnút í magann, ég verð að viðurkenna það. Þetta gekk alveg fram af mér. Mér fannst ég ekki hafa verið að gera neitt markvert- annað en að vinna vinnuna mína, það sama og ég var búin að gera undanfarin 33 ár! Þetta var í einu orði sagt súrrealískt.“

Ester segist aldrei hafa tekið umræðuna nærri sér, eða litið á það sem árás á sína persónu.

„Nei veistu, mér var og er eiginlega alveg sama. Mér fannst þetta auðvitað ekkert þægilegt, öll þessi athygli. Ég leiddi þetta bara hjá mér, ég er bara þannig gerð. Ég er bara venjuleg úthverfakona, mamma og amma úr Árbænum, og lifi lífinu fyrir mig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×