Íslenski boltinn

„Ekkert smá sætt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristrún Ýr Holm er fyrirliði Keflavíkur sem er ekki lengur á botni Bestu deildarinnar.
Kristrún Ýr Holm er fyrirliði Keflavíkur sem er ekki lengur á botni Bestu deildarinnar. vísir/anton

Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, var að vonum sátt eftir fyrsta sigur liðsins í Bestu deildinni í sumar. Í dag lögðu Keflvíkinga Þróttara að velli, 1-0.

„Ég er ekkert smá ánægð. Þetta var kærkominn,“ sagði Kristrún í samtali við Vísi eftir leikinn í Keflavík í dag.

„Mér fannst þær ekki skapa sér mörg færi. Varnarleikurinn var alveg til fyrirmyndar,“ bætti fyrirliðinn við.

Leikur dagsins var fremur lokaður og fátt var um færi. Keflvíkingar voru þó hættulegri og skoruðu eina mark leiksins þegar Melaine Claire Rendeiro kom boltanum í netið á 70. mínútu.

„Það var ekkert smá sætt. Eftir það settum við í lás,“ sagði Kristrún en Keflvíkingar vörðu forystu sína af öryggi það sem eftir lifði leiks.

„Við vorum rosalega skipulagðar og það var góður talandi í liðinu. Það var mikil barátta í okkur og við vorum mjög tilbúnar í þennan leik. Sigurinn um síðustu helgi hjálpaði líka gríðarlega,“ sagði Kristrún og vísaði þar til 1-3 sigursins á Gróttu í Mjólkurbikarnum.

Keflavík hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

„Þetta er gott upp á sjálfstraustið. Við vitum alveg hvað við getum og þetta sýnir það. Við eigum nóg inni,“ sagði Kristrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×