Hvalveiðar á Íslandi, löng saga spillingar og sérhagsmunatengsla Valgerður Árnadóttir skrifar 26. maí 2024 11:31 Hvalveiðar hafa verið stundaðar í heiminum í þúsundir ára og í hundruð ára í hafinu í kringum Ísland, en saga hvalveiða Íslendinga sjálfra eiga sér þó ekki langa sögu. Einn af okkar þekktustu andstæðingum hvalveiða var Jóhannes S. Kjarval sem málaði myndina „Hið stóra hjarta” sem er meðfylgjandi og birti í Morgunblaðinu árið 1948 ásamt hugvekju um mikilvægi þess að við verndum hvali; „Eftirtektarvert er það, eftir því sem hvalveiðarahugsun fullkomnast og finnur sinn hag nær settu marki, eftir því grípur stríðsæsingamöguleikinn víðtækara um sig í heiminum, og þó er þetta í sjálfu sjer engin engin furða, þar sem tilgangurinn er að veiða hið stóra hjarta, sem auðvitað tekur á móti hinni grimmúðlegu, mannlegu hyggjuhugsun og endurgeislar henni. Hið stóra hjarta heimssálarinnar, hvalanna, sortjerar undir tónbylgjum, sem mundu glatast þessum hnetti ef við högum okkur verr en óvitar”. Ég hyggst fara yfir söguna og kryfja baráttu hagsmunasamtaka og fyrirtækja fyrir hvalveiðum og gegn hvalveiðum og skoða hvernig og hvaða leikendur höfðu áhrif á ríkisvaldið síðastliðin rúm 40 ár frá því að byrjað var að deila um málefnið. Að málinu koma, hagsmunasamtök, alþjóðastofnanir, ríkisstofnanir/eftirlitsstofnanir, stjórnmálamenn og fyrirtæki. Saga hvalveiða Hvalveiðar við Íslandsstrendur voru fram á 20. öld aðallega stundaðar af öðrum en okkur Íslendingum. Baskar voru fyrstir til að stunda skipulagðar hvalveiðar í Evrópu á 12. öld. Þeir veiddu fyrst sléttbaka í Biskajaflóa á tólftu öld og fóru síðan norðar til Svalbarða og við Íslandsstrendur á 17. öld. Hollendingar, Danir og Norðmenn fylgdu fljótlega eftir Böskum við veiðar í Norðurhafi. Á 16-17 öld voru Íslendingar orðnir mjög ósáttir við subbuskap þann sem hvalveiðar baska höfðu í för með sér en þeir skildu eftir rotnandi hræin í fjörðunum okkar. Árið 1615 átti svo sá hræðilegi atburður sér stað að vestfirðingar vegna þessarar gremju myrtu 32 baska sem þar urðu strandaglópar þegar hvalveiðiskip þeirra fórust (Atli Þór Ægisson, 2016). Alveg fram á tuttugustu öld veiddu aðallega frakkar, norðmenn og danir hvali við Íslandsstrendur en árið 1915 bönnuðu íslendingar loks hvalveiðar til 10 ára í það minnsta. Ástæður þess voru erlendur ágangur, mengunin sem fylgdi eftirvinnslu hvalveiðanna og neikvæð áhrif á fiskveiðar. Banninu var lyft 1928, en það var ekki fyrr en árið 1935 að hvalveiðar hófust aftur í litlu magni í atvinnuskyni með nýrri löggjöf sem heimilaði aðeins íslenskum hvalveiðimönnum að veiða í íslenskri landhelgi (IFAW, ed.). Það var svo árið 1948 þegar Hvalur hf. var stofnað að hvalur var veiddur í miklu magni aftur (Margrét Tryggvadóttir, 2022). Hvalstöðin í Hvalfirði Íslendingar reyndu öldum saman að stöðva hvalveiðar annarra ríkja við Íslandsstrendur. Að opna hvalstöð í Hvalfirði og hefja veiðar eftir seinni heimsstyrjöldina er hugmynd komin frá bandaríkjamönnum. Það kom til þannig að herinn byggði herstöð í Hvalfirði í seinni heimsstyrjöldinni sem þeir áttu erfitt með að finna nýtt notagildi fyrir eftir stríð, þetta var þeirra varnarsvæði og þeir þurftu að halda aðgengi sínu að olíutönkum og innviðum á svæðinu. Sagan segir að þeir hafi hvatt útgerðarmennina Loft Bjarnason og Vilhjálm Árnason að hefja hvalveiðar að nýju og nota þá innviði sem herinn byggði upp, td. starfsmannabragga, mannvirki og höfn gegn því að herinn hefði áfram aðgang að svæðinu þyrftu þeir það seinna meir. Þessar upplýsingar eru athyglisverðar að því leiti að Bandaríkjamenn hafa verið hvað harðastir í andstöðu sinni við hvalveiðar frá stofnun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) sem stofnað var í Washington DC árið 1946 og Ísland gekk í 1948. Sama ár og þeir félagar, Loftur og Vilhjálmur, stofnuðu Hval hf. Tilgangur alþjóðasamnings um stjórn hvalveiða var að tryggja örugga vernd hvalastofnana og leggja þar með grundvöll að skipulögðum hvalaiðnaði (Alþjóðasáttmáli um stjórn hvalveiða,1946). IWC hefur í sjálfu sér engin formleg refsiákvæði og treystir þess vegna á aðgerðir náttúru og dýraverndarsamtaka, mótmæli almennings og önnur ríki til hafa hemil á þjóðum sem stunda hvalveiðar. En í BNA eru í gildi lög sem kveða á um að ríki sem virða að vettugi Alþjóðahvalveiðisáttmálann geti átt yfir höfði sér viðskiptaþvinganir af hálfu BNA. Slíkar hótanir eru teknar alvarlega af hvalveiðiþjóðum, sem eiga það sameiginlegt að eiga mikil viðskipti við BNA (Jóhann Viðar Ívarsson, 1994). Hvalur hf. varð stórtækasta hvalveiðiútgerð á Íslandi og er í dag sú eina starfandi. Samkvæmt upplýsingum frá árinu 1975 veiddi Hvalur hf. að meðaltali 250 langreyðar, 65 sandreyðar og 78 búrhvali árlega, til viðbótar við nokkra steypireyði og hnúfubaka. Megnið af hvalkjötinu var selt til Bretlands, á meðan hvalamjöl var notað til dýraeldis innanlands. Fram að lokum 20. aldar veiddu íslenskir hvalveiðimenn alls um 17 þúsund hvali á Íslandsmiðum. Tekist á um hvalveiðar á Alþingi á níunda áratugnum Árið 1982 dró til tíðinda, sökum þess að hvalastofnar voru að minnka um allan heim lagði Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) fram bann á hvalveiðum í atvinnuskyni sem taka myndi gildi árið 1986. Alþingi kaus í febrúar árið 1983 að gangast við og mótmæla ekki ákvörðun IWC með naumum meirihluta atkvæða, 29 atkvæðum gegn 28. Miklar umræður voru á þingi og ljóst að hvalveiðar voru umdeildar og þá sérstaklega vegna hræðslu við að bandaríkjamenn myndu beita Íslendingum viðskiptaþvingunum ef við yrðum ekki við ákvörðun IWC. Þáv. sjávarútvegsráðherra Steingrímur Hermannsson (1983) var ekki fylgjandi hvalveiðibanni og sagði í ræðu sinni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þingið ætti ekki að samþykkja hvalveiðibann, sú tillaga var hins vegar felld og vakti athygli að þingflokkar voru ekki innbyrðis sammála, meira að segja sjálfstæðis- og framsóknarmenn tvístruðust í afstöðu sinni til hvalveiða og það myndi þykja til tíðinda í dag. Samningur IWC fól samt sem áður í sér undantekningu fyrir hvalveiðar í vísindaskyni og Hafrannsóknarstofnun útbjó fjögurra ára rannsóknaráætlun, árlega yrðu veiddar 80 langreyðar, 40 sandreyðar og 80 hrefnur. Hval hf. var falið að sinna þessum „rannsóknarveiðum” sem stóðu til 1989, þá höfðu 362 hvalir verið veiddir. Hvalur hf. seldi jafnframt stóran hluta hvalkjötsins til Japan þrátt fyrir tilskipanir IWC þess efnis að kjötið yrði a.m.k. til helminga notað til innanlands-neyslu (Morgunblaðið, 1989) Andstaða alþjóðasamfélagsins og mótmæli Hvalveiðar Íslendinga mættu mikilli andstöðu alþjóðasamfélagsins, erlend náttúruverndar- og dýravelferðarsamtök á borð við Greenpeace, WWF og Sea Shepherd mótmæltu hvalveiðum Íslendinga. Sumarið 1978 eltu Greenpeace-liðar á skipi sínu „Rainbow warrior” báta Hvals hf. og mynduðu veiðarnar og reyndu að koma í veg fyrir veiðar þeirra, þeir ætluðu að endurtaka leikinn sumarið 1979 en þá höfðu Íslendingar undirbúið sig undir komu þeirra og skutu hvalveiðimenn skutlum yfir þá og Landhelgisgæslan stöðvaði för þeirra tvívegis svo þeir gáfust upp og hörfuðu (Day, David,1987). Meiri alvara hljóp í mótmælin þegar Hval 6 og Hval 7 var sökkt í október árið 1986. Paul Watson forsprakki Sea Shepherd lýsti yfir ábyrgð á verknaðinum og sagði að hann og hans félagar væru með athæfinu að framfylgja samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hann sagði að Íslendingar hefðu brotið. Halldór Ásgrímsson (Framsókn) þáv. sjávarútvegsráðherra lét þau orð falla að „Þetta mun þjappa okkur íslendingum enn betur saman. Við munum ekki láta ofbeldisverknaði hafa áhrif á okkur" ( Ólafur Arnarsson, 1986). Það má segja að þessi orð Halldórs hafi staðist, eftir þennan verknað var stuðningur stjórnvalda og almennings við hvalveiðar á Íslandi meira áberandi. Kristján Loftsson aðaleigandi Hvals hf. hlaut stuðning og samkennd fólks og umræðan fór að snúast um að við værum sjálfstæð þjóð sem ættum ekki að leyfa „einhverjum útlendingum” að segja okkur fyrir verkum. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem áður höfðu verið tvístraðir í afstöðu sinni með og á móti hvalveiðum urðu samstíga stuðningsmenn hvalveiða og í framhaldinu virtist samband stjórnmálamanna úr þeirra röðum við Kristján Loftsson náið. Paul Watson var úthrópaður hryðjuverkamaður í fjölmiðlum en hann hlaut aldrei ákæru eða dóm fyrir verknaðinn (Kristinn H. Guðnason, 2018). Það var þó langt í frá að allir Íslendingar væru nú fylgjandi hvalveiðum. Áttatíu náttúruverndarsinnar á Íslandi stofnuðu Hvalavinafélagið árið 1987 og stóðu fyrir fjölmennum mótmælum það sumar og í september það ár hlekkjuðu þrír af þeim sig við möstur og skutulbyssu á Hval 9. Þeir héldu út í rúmlega sólarhring en voru þá orðnir svangir og kaldir enda höfðu starfsmenn Hvals hf. náð að hafa af þeim vistir. Einn af mótmælendunum, Benedikt Erlingsson, varð svo þekktur leikari og margverðlaunaður leikstjóri og hann rifjaði verknaðinn upp í viðtali í fyrra þegar tveir hvalveiðimótmælendur endurtóku leikinn og komu sér fyrir í körfum mastra Hvals 8 og 9 í tæpa 2 daga. Á árunum 1986-89 þrýstu Bandaríkjamenn mikið á íslensk stjórnvöld að hætta hvalveiðum og Greenpeace hófu öfluga herferð gegn íslenskum fiskafurðum sem höfðu umtalsverð áhrif á mörkuðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi . Stórar keðjur á við Wendy´s og Burger King hættu að kaupa íslenskan fisk (DV, 1989). Fyrir tilstuðlan Greenpeace voru einnig tveir gámar, um 170 tonn af hvalkjöti, handlagðir í Hamborg í maí 1987 af þýskum yfirvöldum þar sem þeir töldu að það að flytja hvalkjöt bryti gegn CITES samningnum (Þjóðviljinn,1987). CITES er samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu. Yfirvöld í Þýskalandi vildu meina að siglt hefði verið með hvalkjöt undir fölsku flaggi og að það hefði verið skráð sem fiskur. Íslensk yfirvöld með Halldór Ásgrímsson í fararbroddi fóru í hart við þýsk yfirvöld og svo fór að hvalkjötið var sent aftur til Íslands en ekki áfram til Japan þar sem það átti að fara á markað. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn þá var það ekki staðfest opinberlega hvort kjötið hafði verið ranglega skráð eða ekki. Greenpeace endurtóku svo leikinn í Finnlandi þegar meðlimir þeirra hlekkjuðu sig við gám með hvalkjöti sem endaði með því að finnsk stjórnvöld úrskurðuðu að farmurinn bryti gegn finnskum lögum að hann var sendur aftur til Íslands. Það var nokkur hiti milli stjórnvalda Íslands og BNA á þessum árum vegna hvalveiða og gengu hótanir fram og tilbaka, Ísland hótaði bæði að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og NATÓ ef BNA myndu beita okkur viðskiptaþvingunum. Viðskiptabann hefði haft afdrifarík áhrif á efnahag Íslands, útflutningur á sjávarafurðum nam 71% af heildarvöruútflutningi Íslands 1988 og langstærsti hluti þessa útflutning fór á markaði í BNA og Evrópu. Þegar herferð Greenpeace fór að bíta í Þýskalandi sem hætti þýska verslunarkeðjan Aldi að skipta við Íslensk útgerðarfyrirtæki játuðu Íslensk stjórnvöld sig sigruð og tilkynntu á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í júlí 1989 að þeir myndu hætta hvalveiðum í vísindaskyni (Jóhann Viðar Ívarsson, 1994). Í lok árs 1991 ákvað ríkisstjórn Íslands að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu frá og með júní það ár, í mótmælaskyni við það að Alþjóðahvalveiðiráðið hafði hafnað umsókn Íslands um að halda áfram hvalveiðum í vísindaskyni. Þá tók Ísland þátt í fyrsta fundi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) árið eftir á Grænlandi. Ísland sóttist eftir hrefnuveiði-heimildum sem það taldi að NAMMCO myndi veita sem þó ekki var samþykkt. Ísland átti einnig frumkvæði í viðræðum við Sameinuðu þjóðirnar varðandi Framkvæmdaáætlun 21, sem miðaði að því að fá NAMMCO viðurkennt sem raunhæfan valkost við Alþjóðahvalveiðiráðið. Það var hins vegar ákveðið á fundinum að Alþjóðahvalveiðiráðið myndi áfram teljast alþjóðlegt yfirvald þegar kom að hvalavernd og stjórnun hvalveiða (IFAW, ed). Ísland er aðili að NAMMCO enn þann dag í dag og nýlega mótmæltu Hvalavinir á fundi NAMMCO sem haldinn var á Grand hótel og sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis að Ísland ætti að segja sig úr NAMMCO og banna hvalveiðar (Mbl, 2024). Árin 1992-2002 voru engir hvalir veiddir á Íslandsmiðum en árið 2002 gekk Ísland aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með lagalega umdeildum fyrirvara um hvalveiðibannið. Ísland lýsti því yfir að hefja ekki hvalveiðar á ný fyrr en árið 2006 með þeim fyrirvara að IWC miðaði áfram í því að búa til kvótakerfi sem gerði hvalveiðar í atvinnuskyni mögulegar. En sökum þess fyrirvara neita ákveðin lönd ennþá að viðurkenna Ísland sem fullgildan aðila í ráðinu. Ísland hóf fimm ára rannsóknaráætlun á hvalastofnum og á árunum 2003 til 2007 stunduðu Íslendingar hvalveiðar í vísindaskyni á hrefnum, sandreyðum og langreyðum og hóf svo hvalveiðar í atvinnuskyni á nýjan leik árið 2006 en samkv. heimild mátti veiða níu langreyðar og 30 hrefnur (af þeim voru sjö af hvorum stofni veidd á endanum). Árið 2008 bætti ríkisstjórnin í og gaf út að kvótinn fyrir hrefnuveiðar væru 40 hrefnur, þar af voru 38 veiddar (IFAW, ed.) Síðasta verk ráðherra fallinnar ríkisstjórnar að gefa út hvalveiðileyfi Í kjölfar fjármálahrunsins 2008 féll ríkisstjórn Íslands í janúar árið 2009. Þáv. sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokknum) lét það verða eitt af sínu síðustu verkum á síðustu dögum í embætti að stórauka sjálfskipaðar hvalveiðiheimildir Íslands og leyfa veiðar á 150 langreyðum og 100 hrefnum árlega til ársins 2013. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að „eingöngu þeim skipum, sem eru sérútbúin til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði.”- Eina útgerðin með slíkan útbúnað var Hvalur hf. svo það má leiða líkum að því að þetta leyfi var sérútbúið fyrir þá. Næsti sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon (Vinstri grænum) afturkallaði ekki ákvörðunina þrátt fyrir yfirlýst stefna Vinstri grænna væri að banna hvalveiðar og bar hann fyrir sig stjórnsýslulög sem ástæða þess að hann gæti ekki afturkallað hvalveiðileyfið. Hvalveiðar í atvinnuskyni hófust á ný í stórum stíl, 125 langreyðar og 81 hrefna voru veiddar árið 2009. Árið á eftir 2010 voru fleiri hvalir veiddir í atvinnuskyni en í marga áratugi þar á undan og alls voru 148 langreyðar og 60 hrefnur veiddar. En það ár gerðist annað sem var jákvætt fyrir efnahag Íslands, öskugos í Eyjafjallajökli sem lamaði um tíma allar flugsamgöngur í heiminum olli því að fréttaflutningur frá Íslandi var gríðarlegur og virtist vera „ókeypis auglýsing” því ferðamenn tóku að streyma til landsins í framhaldinu. En með auknum ferðamannastraumi eykst einnig neikvæð athygli vegna hvalveiða og þá koma IFAW við sögu. Alþjóðadýravelferðarsjóðurinn (IFAW – International Fund for Animal Welfare) eru samtök sem hafa barist fyrir verndun hvala við Íslandsstrendur frá árinu 1990 þegar þau áttu frumkvæði að fyrstu rannsókn á því hvort hvalaskoðun væri fýsilegur atvinnuvegur á Íslandi. Samtökin ráku herferðina í samstarfi hvalaskoðunarfyrirtæki, sem voru í mikilli sókn vegna aukins fjölda ferðamanna. Herferðin bar heitið „Meet us, don´t eat us” (íe. Hittu okkur, ekki éta okkur) og markmið þess var að upplýsa ferðamenn á Íslandi um skaðsemi hvalveiða og hvetja þá til að fara í hvalaskoðun og sjá þá frekar en að borða þá. Herferðin bar árangur, um 100 þús undirskriftir söfnuðust gegn hvalveiðum og sala á hvalkjöti á Íslandi minnkaði um helming. (IFAW, ed.) Árið 2011 mælti Hafrannsóknastofnun með auknum kvóta, þannig að veiða mátti 154 langreyðar og 216 hrefnur. En það ár skók skelfilegur jarðskjálfti Japan og flóðbylgja reið yfir landið. Þær hamfarir ollu hruni á japanska hvalkjötsmarkaðnum, sem varð til þess að tveggja ára hlé varð á langreyðarveiðum. Það gekk upp og ofan að selja hvalkjötið og mikið af því safnaðist upp í frystihúsum Hvals hf. En 2011 var hvalkjöt að andvirði tæplega 2,4 milljarða króna í frystihúsi Hvals (Viðskiptablaðið, 2011). Hvalur hf. tók að búa til úr því hvalmjöl sem svo fékk ekki tilskilin leyfi Matvælastofnunar, hvorki til manneldis né í dýrafóður (Ríkisútvarpið, 2014). Í janúar árið 2014 kom upp mjög svo sérkennilegt mál þegar brugghúsið Steðji setti á markað hvalbjór með hvalmjöli frá Hval.hf. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands (HV) stöðvaði sölu bjórsins vegna þess að hvalmjölið sem notað var var ekki talið hæft til neyslu en þáv. sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsókn) afturkallaði ákvörðun HV og bjórinn fór á markað og seldist upp á einni viku. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti svo um haustið úrskurð þar sem það staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlit Vesturlands frá því í janúar um að stöðva átti markaðssetningu og innkalla hvalabjórinn (Mbl.is, 2014). Það er ekki að finna í neinum gögnum að þetta athæfi Sigurðar Inga hafi haft neinar afleiðingar í för með sér fyrir hann þrátt fyrir að hann hafi tekið fyrir hendurnar á tveim stofnunum, Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands en það telst sannarlega ekki til meðalhófs og brýtur mögulega í bága við stjórnsýslulög. Sigurður Ingi minnkaði einnig griðasvæði hvala í Faxaflóa eftir að forveri hans í embætti, Steingrímur J. Sigfússon, stækkaði svæðið allverulega skömmu áður en hann lét af embætti, sú ákvörðun Sigurðar Inga var harðlega gagnrýnd af Samtökum ferðaþjónustunnar sem sagði það hafa slæm áhrif á hvalaskoðunarfyrirtæki. Barack Obama biður Íslendinga að hætta hvalveiðum Fyrsta apríl árið 2014 sendi þáv. Bandaríkjaforseti Barack Obama frá sér minnisblað og hvatti Íslendinga til þess að hætta að vera hvalveiðiþjóð og gerast í stað þess hvalaskoðunarþjóð. Jafnframt segir í minnisblaðinu að með veiðum á langreyð stefni Íslendingar tegundinni í voða og grafi undan tilraunum alþjóðasamfélagsins til að vernda stofninn. Forsetinn bað Íslendinga að hlíta ályktunum IWC um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni og að hans ráðherrar myndu endurmeta hvort við hæfi væri að heimsækja Ísland, í ljósi þessa (The White house, 2014) Árið eftir fór Hvalur hf. þó samt sem áður til veiðar en á árunum 2013-2015 voru 426 langreyðar og 88 hrefnur veiddar (IFAW, ed.). Í febrúar 2016 lýsti Kristján Loftsson því yfir að hann myndi ekki veiða það ár vegna breyttra aðferða Japana við að flokka hvalkjöt. Þá sendi hann árið 2017 til Japan rúm 1400 tonn af hval sem veiddur var 2015 og höfðu verið í frysti síðan (Viðskiptablaðið, 2017). IFAW fengu Gallup til að kanna viðhorf til hvalveiða og hvalkjöts árið 2017 en niðurstöður hennar voru að neysla á hvalkjöti hefði verulega dregist saman og aðeins 1% Íslendinga borðaði hvalkjöt að staðaldri (sex sinnum eða oftar á ári) og að heil 81% sögðust aldrei hafa borðað það. Ráðherra tekur fram fyrir hendur á eftirlitsstofnunum Árið 2018 var það síðasta í fimm ára veiðileyfi Hvals hf. og margir töldu að það myndi þýða endalok veiða Hvals hf. þar sem bæði hefði gengið illa að selja hvalkjöt í mörg ár og ekkert verið veitt í 2 ár, það kom því mörgum á óvart þegar Kristján Loftsson lýsti því yfir 17. apríl 2018 að hann myndi hefja á ný veiðar á langreyðum. Hann fékk úthlutaðann kvóta upp á 238 langreyðar. Kristján sagðist þá ætla að búa til fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáðist af blóðþurrð og fékk Nýsköpunarsjóð og Háskóla Íslands með sér í að kanna fýsileika þess, en hann reyndist enginn (DV, 2018). Það var harðlega gagnrýnt þegar kom í ljós að sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson hafði breytt reglugerð um verkun á hvalkjöti og fylgt við þá ákvörðun beiðni sem Kristján Loftsson sendi ráðherra í tölvupósti 17. Maí 2018. Með reglugerðarbreytingunni sem undirrituð var 25. Maí 2018 felldi ráðherra úr gildi kröfu þess efnis að skera skyldi hval undir þaki en ekki undir berum himni. Í fyrri útgáfu reglugerðarinnar sagði í annarri megingrein 10. greinar: „Hvalskurður skal hafinn um leið og hvalurinn er kominn á land, á þar til gerðum yfirbyggðum skurðarfleti.“ Eftir breytinguna hljóðaði sama grein svona: „Hvalskurður skal hafinn eins fljótt og auðið er eftir að hvalur er kominn á land á skurðarfleti með viðeigandi vörnum sem koma í veg fyrir mengun afurða samkvæmt áhættumati sem rekstraraðili gerir.“ Fyrri reglugerð frá árinu 2009 um að verka hvalkjöt undir þaki hafði aldrei verið fylgt og hvorki MAST né Heilbrigðiseftirlit Vesturlands höfðu fram að þessu brugðist við því en með þessum breytingum var fyrirtækinu sjálfu gert að meta eigið hæfi til að passa upp á mengun afurða (Freyr Rögnvaldsson, 2018). Kristján Þór Júlíusson var þannig enn annar sjávarútvegsráðherra sem tók fram fyrir hendurnar á þeim eftirlitsstofnunum sem eiga að tryggja heilnæmi matvöru til að þóknast Kristjáni Loftssyni. Náttúru- og dýraverndarsamtök á Íslandi hófu að nýju að mótmæla hvalveiðum Íslendinga, en undirrituð sem þá var varaformaður Samtaka grænkera á Íslandi sameinaði fleiri náttúruverndarsamtök í herferð gegn hvalveiðum undir regnhlífinni „Stop whaling in Iceland” (ganga undir nafninu Hvalavinir í dag). Í herferðinni tóku þátt bæði innlend og erlend félagasamtök og undirskriftarsöfnun gegn hvalveiðum náði yfir milljón undirskriftum. Fjölmiðlar veltu því mikið fyrir sér þetta sumar hvers vegna Kristján Loftsson virtist hafa svo mikil ítök innan ríkisstjórnarinnar og hvers vegna eftirlitsaðilar létu viðgangast að kjöt var verkað undir berum himni árum saman, þvert á reglugerð frá 2009. Hvalur hf. hafði alla tíð verið að hluta til í eigu Engeyjarættarinnar og á þessum tíma var Einar Sveinsson stjórnarformaður Hvals -föðurbróðir Bjarna Benediktssonar þáv. fjármálaráðherra (Jóhann Páll Jóhannsson, 2018). Fjölmiðlar á alþjóðavísu fjölluðu svo um veiðar Hvals hf. á tveim blendingshvölum sem voru afkvæmi steypireyðar og langreyðar en steyðireyður er í útrýmingarhættu og friðaður með öllu (Matt McGrath,2018). Þessar fréttir vöktu gífurlega reiði og ferðaþjónustu- og hvalaskoðunarfyrirtæki á íslandi urðu vör við afbókanir og hvöttu stjórnvöld til að banna hvalveiðar til að vernda ferðaiðnaðinn sem orðinn var næst stærsti iðnaður á Íslandi. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brást við með þeim orðum að hann „sæi ekki ástæðu til að endurskoða hvalveiðileyfi án þess að fyrir því væri vísinda- eða hagfræðilegur grundvöllur. Í maí síðastliðnum óskaði ég eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin myndi meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar. “ og að hann myndi á grundvelli þessara upplýsinga móta ákvörðun sína um hvort gefin verði út áframhaldandi kvóti til hvalveiða (Lilja Hrund A. Lúðvíksdóttir, 2018). Árið 2019 endurnýjaði Kristján Þór Júlíusson þáv. sjávarútvegsráðherra veiðileyfi Hvals hf. og þá ákvörðun byggði hann meðal annars á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða ( Stjórnarráðið, 2019). En sú skýrsla var að mati vísindamanna uppfull af rangfærslum og með tilvísunum í úreltar rannsóknir. Vistfræðifélag Íslands gaf út ályktun vegna „ófaglegrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla” þar sem fram kom ma. „glæfraleg túlkun og ónákvæmar forsendur þegar höfundar styðjast nær eingöngu við tvær rúmlega tveggja áratuga gamlar vísindagreinar Hafrannsóknastofnunar” og að „skýrslan sniðgengur nýjustu þekkingu á sviði sjávarvistfræðikýrsla og byggir á mjög einfaldaðri mynd af vistfræði, vistkerfum og fæðuvefjum hafsins”. Að auki kom fram að Kristján Loftsson hefði styrkt Hagfræðistofnun HÍ um 6 milljónir króna rétt áður en skýrslan var unnin (Gunnar Egill Daníelsson, 2019). Þessi tíðindi slógu náttúruverndarsamtök á Íslandi illa og um vorið mótmæltu átta félagasamtök hvalveiðum fyrir framan Alþingi og kröfðust þess að leyfið yrði afturkallað þar sem það hafði verið veitt á fölskum forsendum, með vísan í úreltar rannsóknir og vegna augljósra spillingar- og hagsmunatengsla“ (Birna Stefánsdóttir, 2019). Það urðu þó engar veiðar árið 2019 og sagði Kristján Loftsson ástæðuna vera að leyfið hefði borist honum of seint til að hann gæti skipulagt vertíðina og gert skipin klár (Kristján Már Unnarsson, 2019). Hann kærði þó ekki Kristján Þór Júlíusson eða íslenska ríkið um bætur eins og hann hefur hótað ráðherrum Vinstri grænna 2023 og nú í ár. Árin 2019-2021 var ekki veitt en árið 2022 voru 148 langreyðar veiddar og náttúruverndarsamtökin Hard to Port með Arne Feuerhahn í fararbroddi fylgdist með við Hvalstöðina í Hvalfirði og skráði allan afla sem kom í land. Hann upplýsti almenning um þann fjölda kelfdra langreyðakúa sem höfðu verið veiddar og myndaði fóstrin sem dregin voru úr kviði langreyðanna á plani Hvalstöðvarinnar ásamt öllum þeim hvölum sem höfðu verið skotnir oftar en einu sinni (Sunna Ósk Logadóttir, 2022). Þær myndir vöktu mikinn óhug og reiði meðal almennings, náttúruverndarsamtök mótmæltu og kröfðust aðgerða og svo varð að Svandís Svavarsdóttir þáv.matvælaráðherra (Vinstri græn) fyrirskipaði eftirlit með veiðum Hvals hf. frá 10. ágúst til loka tímabilsins (Stjórnarráðið, 2023). Eftirlitsskýrsla-Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022 kom svo út vorið 2023 ásamt myndefni sem tekið var upp um borð. Þau myndbönd sýndu mörg og alvarleg frávik og bæði stjórnmálamenn og almenningur krafðist þess að veiðum yrði hætt. Úr skýrslunni: „Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir voru 36 langreyðar (24%) skotnar oftar en einu sinni, þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klukkustundir án árangurs. Miðgildi tíma frá fyrsta skoti til dauða hvala þeirra sem drápust ekki strax var 11,5 mínútur og dauðastríð varði í allt að tvær klukkustundir. Þrír hvalir voru skotnir en náðust ekki og hafa háð langt og kvalafullt dauðastríð.” Bæði Matvælastofnun og Fagráð um velferð dýra úrskurðaði að veiðiaðferðir þær sem notaðar eru við veiðar á hval uppfylli ekki skilyrði laga um mannúðlega aflífun dýra og Svandís Svavarsdóttir setti vegna þess úrskurðar á tímabundna stöðvun á hvalveiðar 20. Júní 2023, daginn áður en vertíðin átti að hefjast. Sú stöðvun vakti mikla reiði meðal sjálfstæðismanna og þeirra sem höfðu verið ráðnir á vertíð af Hval hf. og hófst mikið fjölmiðlastríð og hótanir í garð Svandísar. 31. ágúst leyfði Svandís svo veiðar að nýju (Sunna Ósk Logadóttir, 2023). Öflug herferð Hvalavina Hvalavinir höfðu mótmælt allt vorið og sumarið og þau mótmæli vöktu meiri athygli innan lands sem og utan enn sést hafði áður, alþjóðlegar stórstjörnur á við Jason Momoa, Leonardo diCaprio, Asa Butterfield og Björk biðluðu til íslenskra stjórnvalda að stöðva hvalveiðar ásamt íslenskum listamönnum GDRN, Aníta Briem, Hera Hilmars, Bubbi, Andri Snær Magnason, Sjón, Ragga Gísla, Sóley ofl. Níutíu frægir kvikmyndagerðarmenn um allan heim, Sir Peter Jackson, James Cameron, Hillary Swank ofl. sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis að þau skildu sniðganga Ísland með sín verkefni ef Ísland myndi halda áfram hvalveiðum og íslenskir kvikmyndagerðarmenn með Baltasar Kormák í broddi fylkingar lýstu yfir djúpum áhyggjum af því og tóku undir (Lovísa Arnardóttir, 2023). Síðasta úrræði mótmælenda til að reyna stöðva veiðarnar voru nóttina áður en þær áttu að hefjast að tveir mótmælendur, Anahita Babaei og Elissa Bijou Philips, klifruðu upp í möstur Hvals 8 og 9 við Reykjavíkurhöfn og stöðvuðu bátana í tvo daga. Fjölmiðlar stóðu vaktina þá tvo daga og almenningur fylgdist með beinu streymi af mótmælaaðgerðunum frá Reykjavíkurhöfn (Vísir, 2023). Hvalur hf. fór á veiðar og veiddi 24 langreyðar en eftirlitsaðilar voru um borð sem stöðvaði bátana tvívegis vegna fráviks við veiðar sem brutu í bága við reglugerðir (Hólmfríður Gísladóttir, 2023). Mun Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gefa út nýtt leyfi 2024? Þegar þetta er skrifað, 24 maí 2024, er enn óljóst hvort núv. matvælaráðherra Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir muni gefa út nýtt leyfi til hvalveiða en hún er nýkomin með skýrslu MAST vegna veiða 2023 í hendurnar. Veturinn hefur verið rússíbani fyrir stjórnmálamenn og hvalveiðimótmælendur. Svandís Svavarsdóttir komst naumlega undan vantraustyfirlýsingu tvívegis, fyrst þegar hún fór í veikindaleyfi vegna krabbameins sama dag og Inga Sæland (Flokkur fólksins) hugðist leggja fram vantrausttillögu og svo aftur þegar hún kom aftur úr veikindaleyfi, þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra af sér til að bjóða sig fram til embættis forseta sem varð til þess að Svandís tók sæti sem innviðaráðherra. Þau stólaskipti urðu til þess að hætt var við vantrausttillögu frá Flokki fólksins. (þess má geta að Inga Sæland er þó yfirlýstur andstæðingur hvalveiða og vill banna þær) Í fjarveru Svandísar hafði Katrín skipað starfshóp til að skoða lagaumhverfi hvalveiða en verki þeirra á ekki að vera lokið fyrr en í haust og Bjarkey segir að málið sé í faglegu ferli í ráðuneytinu og ekkert í lögum um hvalveiðar mæli fyrir um tímafrest. Eitt fyrirtæki, einn milljarðamæringur stýrir stefnu hvalveiða á Íslandi Það er ljóst við þessa samantekt að eitt fyrirtæki, einn milljarðamæringur, hefur slík ítök á æðstu valdhafa þessarar þjóðar að þeir veiti honum veiðileyfi og undanþágur af vild án tillits til almannahags eða eðlilegrar stjórnsýslu. Vissulega hafa stjórnvöld hætt hvalveiðum tímabundið vegna utanakomandi þrýstings alþjóðasamfélagsins eins og árið 1989 en það sem af er þessari öld virðast menn í æðstu valdastöðum ríghalda í „rétt Kristjáns Loftssonar til að stunda hvalveiðar í nafni atvinnufrelsis”. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa meira og minna stýrt matvælaráðuneytinu síðastliðin 40 ár og ráðherrar þeirra hafa margoft orðið uppvísir að því að gefa út veiðileyfi og taka einhliða ákvarðanir um hvalveiðar án samráðs og án samtals við þing, hagsmunasamtök og þjóð. Það er þó fyrst núna þegar ráðherrar Vinstri grænna, flokks sem er með þá yfirlýstu stefnu að banna hvalveiðar beita sér og reyna að bæta stjórnsýsluna, lög og reglugerðir er varða hvalveiðar að þingið mótmælir ærlega. Hvar voru allir þessir réttlætisriddarar þegar Einar K. Guðfinnson gaf út veiðileyfi á síðustu dögum fallinnar ríkisstjórnar? Þegar Sigurður Ingi tók fyrir hendurnar á eftirlitsstofnunum og minnkaði griðarsvæði hvala og seldi hvalbjór eða þegar Kristján Þór veitti leyfi byggt á „bull”-skýrslu kostaðri af Kristjáni Loftssyni sjálfum? Í dag er allt sem mælir gegn því að stunda hvalveiðar fyrir efnahag Íslands, Hvalur hf. tapaði 3 milljörðum á 10 árum og ferðamannaiðnaðurinn og kvikmyndaiðnaðurinn sem við höfum lagt hart að okkur að byggja upp á hættu á stórtapi vegna alþjóðlegs þrýstings ef við hættum ekki. Ekki einu sinni almenningur í landinu styður hvalveiðar, samkvæmt könnun Maskínu frá í fyrra eru 53% landsmanna andvíg hvalveiðum og aðeins 29% eru hlynntir þeim. Það vekur athygli að karlmenn eldri en 60 ára eru líklegastir til að styðja hvalveiðar (Maskína 2023). Það er ljóst að ráðherrar Vinstri grænna, sem vill svo til að eru konur, hafa verið að vinna að því að bæta eftirlit með hvalveiðum, herða lög og reglur og bæta stjórnsýsluna og er ekki vanþörf á því. Nýlegt dæmi um verkferla sem hefur vantað eða verið hunsaðir komu í ljós í vor þegar Katrín Oddsdóttir, lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, óskaði eftir afritum af öllum löggildingum Hvals hf. til Matvælaráðuneytisins og einungis eitt skjal komst í leitirnar sem ráðuneytið átti í fórum sínum. Það þýðir að starfsemi Hvals hf. hafi fengið að viðgangast án lögbundinnar löggildingar öll árin 2010-2018. Dýra- og náttúruverndarsamtök hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau biðla til þingsins að breyta lögum svo ráðherra hafi heimild til að grípa til viðeigandi ráðstafana komi í ljós að veiðarnar fara í bága við lög um velferð dýra. Ráðamenn þurfa að auka samráð sitt við þing og almenning, Ísland hefur tækifæri til að vera í fararbroddi þegar kemur að vernd sjávar og að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika. Fyrir tveim árum samþykkti ríkisstjórnin alþjóðlegan sáttmála um að vernda 30% af land- og hafsvæði fyrir árið 2030, það er einungis búið að vernda 0,4% af hafssvæði þegar þetta er skrifað og bara 6 ár til stefnu. Látum það verða okkar fyrsta verk til að uppfylla þann samning að banna hvalveiðar og lýsa yfir friðun hvala í efnahagslögssögu Íslands. Stöðvum hvalveiðar núna! Íslenskur undirskriftarlisti gegn hvalveiðum Alþjóðlegur undirskriftarlisti gegn hvalveiðum Hvalavinir á Facebook Myndbönd listafólks og áhrifafólks sem vill stöðva hvalveiðar Ég vil þakka Árna Finnssyni, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands fyrir aðstoð við gerð þessa samantektar og fyrir ötula og óþreytandi baráttu hans gegn hvalveiðum síðastliðin rúm 40 ár. Einnig kom samantekt IFAW og Margrétar Tryggvadóttur að góðum notum. Takk. Höfundur er talskona Hvalavina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Valgerður Árnadóttir Hvalveiðar Hvalir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson skrifar Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis skrifar Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir skrifar Skoðun Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir skrifar Skoðun Viltu koma að kenna? Hulda María Magnúsdóttir skrifar Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir skrifar Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir skrifar Skoðun Hugmynd af barnum árið 2005 Halla Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Yfir 3000 íbúðir á næstu árum Bragi Bjarnason skrifar Skoðun Áskorun til ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga: Tími til að fjárfesta í framtíð barna okkar Kristján Gísli Stefánsson skrifar Skoðun Er nóg fyrir ríkið að það vilji vita – á þinn kostnað? Páll Steingrímsson skrifar Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson skrifar Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson skrifar Skoðun Bókhaldsbrellur blekkja dómstóla Björn Thorsteinsson skrifar Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson skrifar Skoðun Alþjóðlegur dagur menntunar – Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar Guðjónína Sæmundsdóttir skrifar Skoðun Sagan um gardínurnar Birna Guðný Björnsdóttir skrifar Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir skrifar Skoðun 24. janúar og risastórt vistspor Íslands Stefán Jón Hafstein skrifar Skoðun Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson skrifar Skoðun E. coli eitrun meðal barna og aðrir skaðvaldar í mat Lárus S. Guðmundsson skrifar Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir skrifar Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks skrifar Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson skrifar Skoðun Til varnar leiðindum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Strætó fær sérakrein á Kringlumýrarbraut Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar Skoðun Vinnum saman, stígum fram og göngum í takt Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir skrifar Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson skrifar Sjá meira
Hvalveiðar hafa verið stundaðar í heiminum í þúsundir ára og í hundruð ára í hafinu í kringum Ísland, en saga hvalveiða Íslendinga sjálfra eiga sér þó ekki langa sögu. Einn af okkar þekktustu andstæðingum hvalveiða var Jóhannes S. Kjarval sem málaði myndina „Hið stóra hjarta” sem er meðfylgjandi og birti í Morgunblaðinu árið 1948 ásamt hugvekju um mikilvægi þess að við verndum hvali; „Eftirtektarvert er það, eftir því sem hvalveiðarahugsun fullkomnast og finnur sinn hag nær settu marki, eftir því grípur stríðsæsingamöguleikinn víðtækara um sig í heiminum, og þó er þetta í sjálfu sjer engin engin furða, þar sem tilgangurinn er að veiða hið stóra hjarta, sem auðvitað tekur á móti hinni grimmúðlegu, mannlegu hyggjuhugsun og endurgeislar henni. Hið stóra hjarta heimssálarinnar, hvalanna, sortjerar undir tónbylgjum, sem mundu glatast þessum hnetti ef við högum okkur verr en óvitar”. Ég hyggst fara yfir söguna og kryfja baráttu hagsmunasamtaka og fyrirtækja fyrir hvalveiðum og gegn hvalveiðum og skoða hvernig og hvaða leikendur höfðu áhrif á ríkisvaldið síðastliðin rúm 40 ár frá því að byrjað var að deila um málefnið. Að málinu koma, hagsmunasamtök, alþjóðastofnanir, ríkisstofnanir/eftirlitsstofnanir, stjórnmálamenn og fyrirtæki. Saga hvalveiða Hvalveiðar við Íslandsstrendur voru fram á 20. öld aðallega stundaðar af öðrum en okkur Íslendingum. Baskar voru fyrstir til að stunda skipulagðar hvalveiðar í Evrópu á 12. öld. Þeir veiddu fyrst sléttbaka í Biskajaflóa á tólftu öld og fóru síðan norðar til Svalbarða og við Íslandsstrendur á 17. öld. Hollendingar, Danir og Norðmenn fylgdu fljótlega eftir Böskum við veiðar í Norðurhafi. Á 16-17 öld voru Íslendingar orðnir mjög ósáttir við subbuskap þann sem hvalveiðar baska höfðu í för með sér en þeir skildu eftir rotnandi hræin í fjörðunum okkar. Árið 1615 átti svo sá hræðilegi atburður sér stað að vestfirðingar vegna þessarar gremju myrtu 32 baska sem þar urðu strandaglópar þegar hvalveiðiskip þeirra fórust (Atli Þór Ægisson, 2016). Alveg fram á tuttugustu öld veiddu aðallega frakkar, norðmenn og danir hvali við Íslandsstrendur en árið 1915 bönnuðu íslendingar loks hvalveiðar til 10 ára í það minnsta. Ástæður þess voru erlendur ágangur, mengunin sem fylgdi eftirvinnslu hvalveiðanna og neikvæð áhrif á fiskveiðar. Banninu var lyft 1928, en það var ekki fyrr en árið 1935 að hvalveiðar hófust aftur í litlu magni í atvinnuskyni með nýrri löggjöf sem heimilaði aðeins íslenskum hvalveiðimönnum að veiða í íslenskri landhelgi (IFAW, ed.). Það var svo árið 1948 þegar Hvalur hf. var stofnað að hvalur var veiddur í miklu magni aftur (Margrét Tryggvadóttir, 2022). Hvalstöðin í Hvalfirði Íslendingar reyndu öldum saman að stöðva hvalveiðar annarra ríkja við Íslandsstrendur. Að opna hvalstöð í Hvalfirði og hefja veiðar eftir seinni heimsstyrjöldina er hugmynd komin frá bandaríkjamönnum. Það kom til þannig að herinn byggði herstöð í Hvalfirði í seinni heimsstyrjöldinni sem þeir áttu erfitt með að finna nýtt notagildi fyrir eftir stríð, þetta var þeirra varnarsvæði og þeir þurftu að halda aðgengi sínu að olíutönkum og innviðum á svæðinu. Sagan segir að þeir hafi hvatt útgerðarmennina Loft Bjarnason og Vilhjálm Árnason að hefja hvalveiðar að nýju og nota þá innviði sem herinn byggði upp, td. starfsmannabragga, mannvirki og höfn gegn því að herinn hefði áfram aðgang að svæðinu þyrftu þeir það seinna meir. Þessar upplýsingar eru athyglisverðar að því leiti að Bandaríkjamenn hafa verið hvað harðastir í andstöðu sinni við hvalveiðar frá stofnun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) sem stofnað var í Washington DC árið 1946 og Ísland gekk í 1948. Sama ár og þeir félagar, Loftur og Vilhjálmur, stofnuðu Hval hf. Tilgangur alþjóðasamnings um stjórn hvalveiða var að tryggja örugga vernd hvalastofnana og leggja þar með grundvöll að skipulögðum hvalaiðnaði (Alþjóðasáttmáli um stjórn hvalveiða,1946). IWC hefur í sjálfu sér engin formleg refsiákvæði og treystir þess vegna á aðgerðir náttúru og dýraverndarsamtaka, mótmæli almennings og önnur ríki til hafa hemil á þjóðum sem stunda hvalveiðar. En í BNA eru í gildi lög sem kveða á um að ríki sem virða að vettugi Alþjóðahvalveiðisáttmálann geti átt yfir höfði sér viðskiptaþvinganir af hálfu BNA. Slíkar hótanir eru teknar alvarlega af hvalveiðiþjóðum, sem eiga það sameiginlegt að eiga mikil viðskipti við BNA (Jóhann Viðar Ívarsson, 1994). Hvalur hf. varð stórtækasta hvalveiðiútgerð á Íslandi og er í dag sú eina starfandi. Samkvæmt upplýsingum frá árinu 1975 veiddi Hvalur hf. að meðaltali 250 langreyðar, 65 sandreyðar og 78 búrhvali árlega, til viðbótar við nokkra steypireyði og hnúfubaka. Megnið af hvalkjötinu var selt til Bretlands, á meðan hvalamjöl var notað til dýraeldis innanlands. Fram að lokum 20. aldar veiddu íslenskir hvalveiðimenn alls um 17 þúsund hvali á Íslandsmiðum. Tekist á um hvalveiðar á Alþingi á níunda áratugnum Árið 1982 dró til tíðinda, sökum þess að hvalastofnar voru að minnka um allan heim lagði Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) fram bann á hvalveiðum í atvinnuskyni sem taka myndi gildi árið 1986. Alþingi kaus í febrúar árið 1983 að gangast við og mótmæla ekki ákvörðun IWC með naumum meirihluta atkvæða, 29 atkvæðum gegn 28. Miklar umræður voru á þingi og ljóst að hvalveiðar voru umdeildar og þá sérstaklega vegna hræðslu við að bandaríkjamenn myndu beita Íslendingum viðskiptaþvingunum ef við yrðum ekki við ákvörðun IWC. Þáv. sjávarútvegsráðherra Steingrímur Hermannsson (1983) var ekki fylgjandi hvalveiðibanni og sagði í ræðu sinni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þingið ætti ekki að samþykkja hvalveiðibann, sú tillaga var hins vegar felld og vakti athygli að þingflokkar voru ekki innbyrðis sammála, meira að segja sjálfstæðis- og framsóknarmenn tvístruðust í afstöðu sinni til hvalveiða og það myndi þykja til tíðinda í dag. Samningur IWC fól samt sem áður í sér undantekningu fyrir hvalveiðar í vísindaskyni og Hafrannsóknarstofnun útbjó fjögurra ára rannsóknaráætlun, árlega yrðu veiddar 80 langreyðar, 40 sandreyðar og 80 hrefnur. Hval hf. var falið að sinna þessum „rannsóknarveiðum” sem stóðu til 1989, þá höfðu 362 hvalir verið veiddir. Hvalur hf. seldi jafnframt stóran hluta hvalkjötsins til Japan þrátt fyrir tilskipanir IWC þess efnis að kjötið yrði a.m.k. til helminga notað til innanlands-neyslu (Morgunblaðið, 1989) Andstaða alþjóðasamfélagsins og mótmæli Hvalveiðar Íslendinga mættu mikilli andstöðu alþjóðasamfélagsins, erlend náttúruverndar- og dýravelferðarsamtök á borð við Greenpeace, WWF og Sea Shepherd mótmæltu hvalveiðum Íslendinga. Sumarið 1978 eltu Greenpeace-liðar á skipi sínu „Rainbow warrior” báta Hvals hf. og mynduðu veiðarnar og reyndu að koma í veg fyrir veiðar þeirra, þeir ætluðu að endurtaka leikinn sumarið 1979 en þá höfðu Íslendingar undirbúið sig undir komu þeirra og skutu hvalveiðimenn skutlum yfir þá og Landhelgisgæslan stöðvaði för þeirra tvívegis svo þeir gáfust upp og hörfuðu (Day, David,1987). Meiri alvara hljóp í mótmælin þegar Hval 6 og Hval 7 var sökkt í október árið 1986. Paul Watson forsprakki Sea Shepherd lýsti yfir ábyrgð á verknaðinum og sagði að hann og hans félagar væru með athæfinu að framfylgja samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hann sagði að Íslendingar hefðu brotið. Halldór Ásgrímsson (Framsókn) þáv. sjávarútvegsráðherra lét þau orð falla að „Þetta mun þjappa okkur íslendingum enn betur saman. Við munum ekki láta ofbeldisverknaði hafa áhrif á okkur" ( Ólafur Arnarsson, 1986). Það má segja að þessi orð Halldórs hafi staðist, eftir þennan verknað var stuðningur stjórnvalda og almennings við hvalveiðar á Íslandi meira áberandi. Kristján Loftsson aðaleigandi Hvals hf. hlaut stuðning og samkennd fólks og umræðan fór að snúast um að við værum sjálfstæð þjóð sem ættum ekki að leyfa „einhverjum útlendingum” að segja okkur fyrir verkum. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem áður höfðu verið tvístraðir í afstöðu sinni með og á móti hvalveiðum urðu samstíga stuðningsmenn hvalveiða og í framhaldinu virtist samband stjórnmálamanna úr þeirra röðum við Kristján Loftsson náið. Paul Watson var úthrópaður hryðjuverkamaður í fjölmiðlum en hann hlaut aldrei ákæru eða dóm fyrir verknaðinn (Kristinn H. Guðnason, 2018). Það var þó langt í frá að allir Íslendingar væru nú fylgjandi hvalveiðum. Áttatíu náttúruverndarsinnar á Íslandi stofnuðu Hvalavinafélagið árið 1987 og stóðu fyrir fjölmennum mótmælum það sumar og í september það ár hlekkjuðu þrír af þeim sig við möstur og skutulbyssu á Hval 9. Þeir héldu út í rúmlega sólarhring en voru þá orðnir svangir og kaldir enda höfðu starfsmenn Hvals hf. náð að hafa af þeim vistir. Einn af mótmælendunum, Benedikt Erlingsson, varð svo þekktur leikari og margverðlaunaður leikstjóri og hann rifjaði verknaðinn upp í viðtali í fyrra þegar tveir hvalveiðimótmælendur endurtóku leikinn og komu sér fyrir í körfum mastra Hvals 8 og 9 í tæpa 2 daga. Á árunum 1986-89 þrýstu Bandaríkjamenn mikið á íslensk stjórnvöld að hætta hvalveiðum og Greenpeace hófu öfluga herferð gegn íslenskum fiskafurðum sem höfðu umtalsverð áhrif á mörkuðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi . Stórar keðjur á við Wendy´s og Burger King hættu að kaupa íslenskan fisk (DV, 1989). Fyrir tilstuðlan Greenpeace voru einnig tveir gámar, um 170 tonn af hvalkjöti, handlagðir í Hamborg í maí 1987 af þýskum yfirvöldum þar sem þeir töldu að það að flytja hvalkjöt bryti gegn CITES samningnum (Þjóðviljinn,1987). CITES er samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu. Yfirvöld í Þýskalandi vildu meina að siglt hefði verið með hvalkjöt undir fölsku flaggi og að það hefði verið skráð sem fiskur. Íslensk yfirvöld með Halldór Ásgrímsson í fararbroddi fóru í hart við þýsk yfirvöld og svo fór að hvalkjötið var sent aftur til Íslands en ekki áfram til Japan þar sem það átti að fara á markað. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn þá var það ekki staðfest opinberlega hvort kjötið hafði verið ranglega skráð eða ekki. Greenpeace endurtóku svo leikinn í Finnlandi þegar meðlimir þeirra hlekkjuðu sig við gám með hvalkjöti sem endaði með því að finnsk stjórnvöld úrskurðuðu að farmurinn bryti gegn finnskum lögum að hann var sendur aftur til Íslands. Það var nokkur hiti milli stjórnvalda Íslands og BNA á þessum árum vegna hvalveiða og gengu hótanir fram og tilbaka, Ísland hótaði bæði að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og NATÓ ef BNA myndu beita okkur viðskiptaþvingunum. Viðskiptabann hefði haft afdrifarík áhrif á efnahag Íslands, útflutningur á sjávarafurðum nam 71% af heildarvöruútflutningi Íslands 1988 og langstærsti hluti þessa útflutning fór á markaði í BNA og Evrópu. Þegar herferð Greenpeace fór að bíta í Þýskalandi sem hætti þýska verslunarkeðjan Aldi að skipta við Íslensk útgerðarfyrirtæki játuðu Íslensk stjórnvöld sig sigruð og tilkynntu á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í júlí 1989 að þeir myndu hætta hvalveiðum í vísindaskyni (Jóhann Viðar Ívarsson, 1994). Í lok árs 1991 ákvað ríkisstjórn Íslands að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu frá og með júní það ár, í mótmælaskyni við það að Alþjóðahvalveiðiráðið hafði hafnað umsókn Íslands um að halda áfram hvalveiðum í vísindaskyni. Þá tók Ísland þátt í fyrsta fundi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) árið eftir á Grænlandi. Ísland sóttist eftir hrefnuveiði-heimildum sem það taldi að NAMMCO myndi veita sem þó ekki var samþykkt. Ísland átti einnig frumkvæði í viðræðum við Sameinuðu þjóðirnar varðandi Framkvæmdaáætlun 21, sem miðaði að því að fá NAMMCO viðurkennt sem raunhæfan valkost við Alþjóðahvalveiðiráðið. Það var hins vegar ákveðið á fundinum að Alþjóðahvalveiðiráðið myndi áfram teljast alþjóðlegt yfirvald þegar kom að hvalavernd og stjórnun hvalveiða (IFAW, ed). Ísland er aðili að NAMMCO enn þann dag í dag og nýlega mótmæltu Hvalavinir á fundi NAMMCO sem haldinn var á Grand hótel og sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis að Ísland ætti að segja sig úr NAMMCO og banna hvalveiðar (Mbl, 2024). Árin 1992-2002 voru engir hvalir veiddir á Íslandsmiðum en árið 2002 gekk Ísland aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með lagalega umdeildum fyrirvara um hvalveiðibannið. Ísland lýsti því yfir að hefja ekki hvalveiðar á ný fyrr en árið 2006 með þeim fyrirvara að IWC miðaði áfram í því að búa til kvótakerfi sem gerði hvalveiðar í atvinnuskyni mögulegar. En sökum þess fyrirvara neita ákveðin lönd ennþá að viðurkenna Ísland sem fullgildan aðila í ráðinu. Ísland hóf fimm ára rannsóknaráætlun á hvalastofnum og á árunum 2003 til 2007 stunduðu Íslendingar hvalveiðar í vísindaskyni á hrefnum, sandreyðum og langreyðum og hóf svo hvalveiðar í atvinnuskyni á nýjan leik árið 2006 en samkv. heimild mátti veiða níu langreyðar og 30 hrefnur (af þeim voru sjö af hvorum stofni veidd á endanum). Árið 2008 bætti ríkisstjórnin í og gaf út að kvótinn fyrir hrefnuveiðar væru 40 hrefnur, þar af voru 38 veiddar (IFAW, ed.) Síðasta verk ráðherra fallinnar ríkisstjórnar að gefa út hvalveiðileyfi Í kjölfar fjármálahrunsins 2008 féll ríkisstjórn Íslands í janúar árið 2009. Þáv. sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokknum) lét það verða eitt af sínu síðustu verkum á síðustu dögum í embætti að stórauka sjálfskipaðar hvalveiðiheimildir Íslands og leyfa veiðar á 150 langreyðum og 100 hrefnum árlega til ársins 2013. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að „eingöngu þeim skipum, sem eru sérútbúin til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði.”- Eina útgerðin með slíkan útbúnað var Hvalur hf. svo það má leiða líkum að því að þetta leyfi var sérútbúið fyrir þá. Næsti sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon (Vinstri grænum) afturkallaði ekki ákvörðunina þrátt fyrir yfirlýst stefna Vinstri grænna væri að banna hvalveiðar og bar hann fyrir sig stjórnsýslulög sem ástæða þess að hann gæti ekki afturkallað hvalveiðileyfið. Hvalveiðar í atvinnuskyni hófust á ný í stórum stíl, 125 langreyðar og 81 hrefna voru veiddar árið 2009. Árið á eftir 2010 voru fleiri hvalir veiddir í atvinnuskyni en í marga áratugi þar á undan og alls voru 148 langreyðar og 60 hrefnur veiddar. En það ár gerðist annað sem var jákvætt fyrir efnahag Íslands, öskugos í Eyjafjallajökli sem lamaði um tíma allar flugsamgöngur í heiminum olli því að fréttaflutningur frá Íslandi var gríðarlegur og virtist vera „ókeypis auglýsing” því ferðamenn tóku að streyma til landsins í framhaldinu. En með auknum ferðamannastraumi eykst einnig neikvæð athygli vegna hvalveiða og þá koma IFAW við sögu. Alþjóðadýravelferðarsjóðurinn (IFAW – International Fund for Animal Welfare) eru samtök sem hafa barist fyrir verndun hvala við Íslandsstrendur frá árinu 1990 þegar þau áttu frumkvæði að fyrstu rannsókn á því hvort hvalaskoðun væri fýsilegur atvinnuvegur á Íslandi. Samtökin ráku herferðina í samstarfi hvalaskoðunarfyrirtæki, sem voru í mikilli sókn vegna aukins fjölda ferðamanna. Herferðin bar heitið „Meet us, don´t eat us” (íe. Hittu okkur, ekki éta okkur) og markmið þess var að upplýsa ferðamenn á Íslandi um skaðsemi hvalveiða og hvetja þá til að fara í hvalaskoðun og sjá þá frekar en að borða þá. Herferðin bar árangur, um 100 þús undirskriftir söfnuðust gegn hvalveiðum og sala á hvalkjöti á Íslandi minnkaði um helming. (IFAW, ed.) Árið 2011 mælti Hafrannsóknastofnun með auknum kvóta, þannig að veiða mátti 154 langreyðar og 216 hrefnur. En það ár skók skelfilegur jarðskjálfti Japan og flóðbylgja reið yfir landið. Þær hamfarir ollu hruni á japanska hvalkjötsmarkaðnum, sem varð til þess að tveggja ára hlé varð á langreyðarveiðum. Það gekk upp og ofan að selja hvalkjötið og mikið af því safnaðist upp í frystihúsum Hvals hf. En 2011 var hvalkjöt að andvirði tæplega 2,4 milljarða króna í frystihúsi Hvals (Viðskiptablaðið, 2011). Hvalur hf. tók að búa til úr því hvalmjöl sem svo fékk ekki tilskilin leyfi Matvælastofnunar, hvorki til manneldis né í dýrafóður (Ríkisútvarpið, 2014). Í janúar árið 2014 kom upp mjög svo sérkennilegt mál þegar brugghúsið Steðji setti á markað hvalbjór með hvalmjöli frá Hval.hf. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands (HV) stöðvaði sölu bjórsins vegna þess að hvalmjölið sem notað var var ekki talið hæft til neyslu en þáv. sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsókn) afturkallaði ákvörðun HV og bjórinn fór á markað og seldist upp á einni viku. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti svo um haustið úrskurð þar sem það staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlit Vesturlands frá því í janúar um að stöðva átti markaðssetningu og innkalla hvalabjórinn (Mbl.is, 2014). Það er ekki að finna í neinum gögnum að þetta athæfi Sigurðar Inga hafi haft neinar afleiðingar í för með sér fyrir hann þrátt fyrir að hann hafi tekið fyrir hendurnar á tveim stofnunum, Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands en það telst sannarlega ekki til meðalhófs og brýtur mögulega í bága við stjórnsýslulög. Sigurður Ingi minnkaði einnig griðasvæði hvala í Faxaflóa eftir að forveri hans í embætti, Steingrímur J. Sigfússon, stækkaði svæðið allverulega skömmu áður en hann lét af embætti, sú ákvörðun Sigurðar Inga var harðlega gagnrýnd af Samtökum ferðaþjónustunnar sem sagði það hafa slæm áhrif á hvalaskoðunarfyrirtæki. Barack Obama biður Íslendinga að hætta hvalveiðum Fyrsta apríl árið 2014 sendi þáv. Bandaríkjaforseti Barack Obama frá sér minnisblað og hvatti Íslendinga til þess að hætta að vera hvalveiðiþjóð og gerast í stað þess hvalaskoðunarþjóð. Jafnframt segir í minnisblaðinu að með veiðum á langreyð stefni Íslendingar tegundinni í voða og grafi undan tilraunum alþjóðasamfélagsins til að vernda stofninn. Forsetinn bað Íslendinga að hlíta ályktunum IWC um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni og að hans ráðherrar myndu endurmeta hvort við hæfi væri að heimsækja Ísland, í ljósi þessa (The White house, 2014) Árið eftir fór Hvalur hf. þó samt sem áður til veiðar en á árunum 2013-2015 voru 426 langreyðar og 88 hrefnur veiddar (IFAW, ed.). Í febrúar 2016 lýsti Kristján Loftsson því yfir að hann myndi ekki veiða það ár vegna breyttra aðferða Japana við að flokka hvalkjöt. Þá sendi hann árið 2017 til Japan rúm 1400 tonn af hval sem veiddur var 2015 og höfðu verið í frysti síðan (Viðskiptablaðið, 2017). IFAW fengu Gallup til að kanna viðhorf til hvalveiða og hvalkjöts árið 2017 en niðurstöður hennar voru að neysla á hvalkjöti hefði verulega dregist saman og aðeins 1% Íslendinga borðaði hvalkjöt að staðaldri (sex sinnum eða oftar á ári) og að heil 81% sögðust aldrei hafa borðað það. Ráðherra tekur fram fyrir hendur á eftirlitsstofnunum Árið 2018 var það síðasta í fimm ára veiðileyfi Hvals hf. og margir töldu að það myndi þýða endalok veiða Hvals hf. þar sem bæði hefði gengið illa að selja hvalkjöt í mörg ár og ekkert verið veitt í 2 ár, það kom því mörgum á óvart þegar Kristján Loftsson lýsti því yfir 17. apríl 2018 að hann myndi hefja á ný veiðar á langreyðum. Hann fékk úthlutaðann kvóta upp á 238 langreyðar. Kristján sagðist þá ætla að búa til fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáðist af blóðþurrð og fékk Nýsköpunarsjóð og Háskóla Íslands með sér í að kanna fýsileika þess, en hann reyndist enginn (DV, 2018). Það var harðlega gagnrýnt þegar kom í ljós að sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson hafði breytt reglugerð um verkun á hvalkjöti og fylgt við þá ákvörðun beiðni sem Kristján Loftsson sendi ráðherra í tölvupósti 17. Maí 2018. Með reglugerðarbreytingunni sem undirrituð var 25. Maí 2018 felldi ráðherra úr gildi kröfu þess efnis að skera skyldi hval undir þaki en ekki undir berum himni. Í fyrri útgáfu reglugerðarinnar sagði í annarri megingrein 10. greinar: „Hvalskurður skal hafinn um leið og hvalurinn er kominn á land, á þar til gerðum yfirbyggðum skurðarfleti.“ Eftir breytinguna hljóðaði sama grein svona: „Hvalskurður skal hafinn eins fljótt og auðið er eftir að hvalur er kominn á land á skurðarfleti með viðeigandi vörnum sem koma í veg fyrir mengun afurða samkvæmt áhættumati sem rekstraraðili gerir.“ Fyrri reglugerð frá árinu 2009 um að verka hvalkjöt undir þaki hafði aldrei verið fylgt og hvorki MAST né Heilbrigðiseftirlit Vesturlands höfðu fram að þessu brugðist við því en með þessum breytingum var fyrirtækinu sjálfu gert að meta eigið hæfi til að passa upp á mengun afurða (Freyr Rögnvaldsson, 2018). Kristján Þór Júlíusson var þannig enn annar sjávarútvegsráðherra sem tók fram fyrir hendurnar á þeim eftirlitsstofnunum sem eiga að tryggja heilnæmi matvöru til að þóknast Kristjáni Loftssyni. Náttúru- og dýraverndarsamtök á Íslandi hófu að nýju að mótmæla hvalveiðum Íslendinga, en undirrituð sem þá var varaformaður Samtaka grænkera á Íslandi sameinaði fleiri náttúruverndarsamtök í herferð gegn hvalveiðum undir regnhlífinni „Stop whaling in Iceland” (ganga undir nafninu Hvalavinir í dag). Í herferðinni tóku þátt bæði innlend og erlend félagasamtök og undirskriftarsöfnun gegn hvalveiðum náði yfir milljón undirskriftum. Fjölmiðlar veltu því mikið fyrir sér þetta sumar hvers vegna Kristján Loftsson virtist hafa svo mikil ítök innan ríkisstjórnarinnar og hvers vegna eftirlitsaðilar létu viðgangast að kjöt var verkað undir berum himni árum saman, þvert á reglugerð frá 2009. Hvalur hf. hafði alla tíð verið að hluta til í eigu Engeyjarættarinnar og á þessum tíma var Einar Sveinsson stjórnarformaður Hvals -föðurbróðir Bjarna Benediktssonar þáv. fjármálaráðherra (Jóhann Páll Jóhannsson, 2018). Fjölmiðlar á alþjóðavísu fjölluðu svo um veiðar Hvals hf. á tveim blendingshvölum sem voru afkvæmi steypireyðar og langreyðar en steyðireyður er í útrýmingarhættu og friðaður með öllu (Matt McGrath,2018). Þessar fréttir vöktu gífurlega reiði og ferðaþjónustu- og hvalaskoðunarfyrirtæki á íslandi urðu vör við afbókanir og hvöttu stjórnvöld til að banna hvalveiðar til að vernda ferðaiðnaðinn sem orðinn var næst stærsti iðnaður á Íslandi. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brást við með þeim orðum að hann „sæi ekki ástæðu til að endurskoða hvalveiðileyfi án þess að fyrir því væri vísinda- eða hagfræðilegur grundvöllur. Í maí síðastliðnum óskaði ég eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin myndi meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar. “ og að hann myndi á grundvelli þessara upplýsinga móta ákvörðun sína um hvort gefin verði út áframhaldandi kvóti til hvalveiða (Lilja Hrund A. Lúðvíksdóttir, 2018). Árið 2019 endurnýjaði Kristján Þór Júlíusson þáv. sjávarútvegsráðherra veiðileyfi Hvals hf. og þá ákvörðun byggði hann meðal annars á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða ( Stjórnarráðið, 2019). En sú skýrsla var að mati vísindamanna uppfull af rangfærslum og með tilvísunum í úreltar rannsóknir. Vistfræðifélag Íslands gaf út ályktun vegna „ófaglegrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla” þar sem fram kom ma. „glæfraleg túlkun og ónákvæmar forsendur þegar höfundar styðjast nær eingöngu við tvær rúmlega tveggja áratuga gamlar vísindagreinar Hafrannsóknastofnunar” og að „skýrslan sniðgengur nýjustu þekkingu á sviði sjávarvistfræðikýrsla og byggir á mjög einfaldaðri mynd af vistfræði, vistkerfum og fæðuvefjum hafsins”. Að auki kom fram að Kristján Loftsson hefði styrkt Hagfræðistofnun HÍ um 6 milljónir króna rétt áður en skýrslan var unnin (Gunnar Egill Daníelsson, 2019). Þessi tíðindi slógu náttúruverndarsamtök á Íslandi illa og um vorið mótmæltu átta félagasamtök hvalveiðum fyrir framan Alþingi og kröfðust þess að leyfið yrði afturkallað þar sem það hafði verið veitt á fölskum forsendum, með vísan í úreltar rannsóknir og vegna augljósra spillingar- og hagsmunatengsla“ (Birna Stefánsdóttir, 2019). Það urðu þó engar veiðar árið 2019 og sagði Kristján Loftsson ástæðuna vera að leyfið hefði borist honum of seint til að hann gæti skipulagt vertíðina og gert skipin klár (Kristján Már Unnarsson, 2019). Hann kærði þó ekki Kristján Þór Júlíusson eða íslenska ríkið um bætur eins og hann hefur hótað ráðherrum Vinstri grænna 2023 og nú í ár. Árin 2019-2021 var ekki veitt en árið 2022 voru 148 langreyðar veiddar og náttúruverndarsamtökin Hard to Port með Arne Feuerhahn í fararbroddi fylgdist með við Hvalstöðina í Hvalfirði og skráði allan afla sem kom í land. Hann upplýsti almenning um þann fjölda kelfdra langreyðakúa sem höfðu verið veiddar og myndaði fóstrin sem dregin voru úr kviði langreyðanna á plani Hvalstöðvarinnar ásamt öllum þeim hvölum sem höfðu verið skotnir oftar en einu sinni (Sunna Ósk Logadóttir, 2022). Þær myndir vöktu mikinn óhug og reiði meðal almennings, náttúruverndarsamtök mótmæltu og kröfðust aðgerða og svo varð að Svandís Svavarsdóttir þáv.matvælaráðherra (Vinstri græn) fyrirskipaði eftirlit með veiðum Hvals hf. frá 10. ágúst til loka tímabilsins (Stjórnarráðið, 2023). Eftirlitsskýrsla-Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022 kom svo út vorið 2023 ásamt myndefni sem tekið var upp um borð. Þau myndbönd sýndu mörg og alvarleg frávik og bæði stjórnmálamenn og almenningur krafðist þess að veiðum yrði hætt. Úr skýrslunni: „Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir voru 36 langreyðar (24%) skotnar oftar en einu sinni, þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klukkustundir án árangurs. Miðgildi tíma frá fyrsta skoti til dauða hvala þeirra sem drápust ekki strax var 11,5 mínútur og dauðastríð varði í allt að tvær klukkustundir. Þrír hvalir voru skotnir en náðust ekki og hafa háð langt og kvalafullt dauðastríð.” Bæði Matvælastofnun og Fagráð um velferð dýra úrskurðaði að veiðiaðferðir þær sem notaðar eru við veiðar á hval uppfylli ekki skilyrði laga um mannúðlega aflífun dýra og Svandís Svavarsdóttir setti vegna þess úrskurðar á tímabundna stöðvun á hvalveiðar 20. Júní 2023, daginn áður en vertíðin átti að hefjast. Sú stöðvun vakti mikla reiði meðal sjálfstæðismanna og þeirra sem höfðu verið ráðnir á vertíð af Hval hf. og hófst mikið fjölmiðlastríð og hótanir í garð Svandísar. 31. ágúst leyfði Svandís svo veiðar að nýju (Sunna Ósk Logadóttir, 2023). Öflug herferð Hvalavina Hvalavinir höfðu mótmælt allt vorið og sumarið og þau mótmæli vöktu meiri athygli innan lands sem og utan enn sést hafði áður, alþjóðlegar stórstjörnur á við Jason Momoa, Leonardo diCaprio, Asa Butterfield og Björk biðluðu til íslenskra stjórnvalda að stöðva hvalveiðar ásamt íslenskum listamönnum GDRN, Aníta Briem, Hera Hilmars, Bubbi, Andri Snær Magnason, Sjón, Ragga Gísla, Sóley ofl. Níutíu frægir kvikmyndagerðarmenn um allan heim, Sir Peter Jackson, James Cameron, Hillary Swank ofl. sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis að þau skildu sniðganga Ísland með sín verkefni ef Ísland myndi halda áfram hvalveiðum og íslenskir kvikmyndagerðarmenn með Baltasar Kormák í broddi fylkingar lýstu yfir djúpum áhyggjum af því og tóku undir (Lovísa Arnardóttir, 2023). Síðasta úrræði mótmælenda til að reyna stöðva veiðarnar voru nóttina áður en þær áttu að hefjast að tveir mótmælendur, Anahita Babaei og Elissa Bijou Philips, klifruðu upp í möstur Hvals 8 og 9 við Reykjavíkurhöfn og stöðvuðu bátana í tvo daga. Fjölmiðlar stóðu vaktina þá tvo daga og almenningur fylgdist með beinu streymi af mótmælaaðgerðunum frá Reykjavíkurhöfn (Vísir, 2023). Hvalur hf. fór á veiðar og veiddi 24 langreyðar en eftirlitsaðilar voru um borð sem stöðvaði bátana tvívegis vegna fráviks við veiðar sem brutu í bága við reglugerðir (Hólmfríður Gísladóttir, 2023). Mun Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gefa út nýtt leyfi 2024? Þegar þetta er skrifað, 24 maí 2024, er enn óljóst hvort núv. matvælaráðherra Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir muni gefa út nýtt leyfi til hvalveiða en hún er nýkomin með skýrslu MAST vegna veiða 2023 í hendurnar. Veturinn hefur verið rússíbani fyrir stjórnmálamenn og hvalveiðimótmælendur. Svandís Svavarsdóttir komst naumlega undan vantraustyfirlýsingu tvívegis, fyrst þegar hún fór í veikindaleyfi vegna krabbameins sama dag og Inga Sæland (Flokkur fólksins) hugðist leggja fram vantrausttillögu og svo aftur þegar hún kom aftur úr veikindaleyfi, þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra af sér til að bjóða sig fram til embættis forseta sem varð til þess að Svandís tók sæti sem innviðaráðherra. Þau stólaskipti urðu til þess að hætt var við vantrausttillögu frá Flokki fólksins. (þess má geta að Inga Sæland er þó yfirlýstur andstæðingur hvalveiða og vill banna þær) Í fjarveru Svandísar hafði Katrín skipað starfshóp til að skoða lagaumhverfi hvalveiða en verki þeirra á ekki að vera lokið fyrr en í haust og Bjarkey segir að málið sé í faglegu ferli í ráðuneytinu og ekkert í lögum um hvalveiðar mæli fyrir um tímafrest. Eitt fyrirtæki, einn milljarðamæringur stýrir stefnu hvalveiða á Íslandi Það er ljóst við þessa samantekt að eitt fyrirtæki, einn milljarðamæringur, hefur slík ítök á æðstu valdhafa þessarar þjóðar að þeir veiti honum veiðileyfi og undanþágur af vild án tillits til almannahags eða eðlilegrar stjórnsýslu. Vissulega hafa stjórnvöld hætt hvalveiðum tímabundið vegna utanakomandi þrýstings alþjóðasamfélagsins eins og árið 1989 en það sem af er þessari öld virðast menn í æðstu valdastöðum ríghalda í „rétt Kristjáns Loftssonar til að stunda hvalveiðar í nafni atvinnufrelsis”. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa meira og minna stýrt matvælaráðuneytinu síðastliðin 40 ár og ráðherrar þeirra hafa margoft orðið uppvísir að því að gefa út veiðileyfi og taka einhliða ákvarðanir um hvalveiðar án samráðs og án samtals við þing, hagsmunasamtök og þjóð. Það er þó fyrst núna þegar ráðherrar Vinstri grænna, flokks sem er með þá yfirlýstu stefnu að banna hvalveiðar beita sér og reyna að bæta stjórnsýsluna, lög og reglugerðir er varða hvalveiðar að þingið mótmælir ærlega. Hvar voru allir þessir réttlætisriddarar þegar Einar K. Guðfinnson gaf út veiðileyfi á síðustu dögum fallinnar ríkisstjórnar? Þegar Sigurður Ingi tók fyrir hendurnar á eftirlitsstofnunum og minnkaði griðarsvæði hvala og seldi hvalbjór eða þegar Kristján Þór veitti leyfi byggt á „bull”-skýrslu kostaðri af Kristjáni Loftssyni sjálfum? Í dag er allt sem mælir gegn því að stunda hvalveiðar fyrir efnahag Íslands, Hvalur hf. tapaði 3 milljörðum á 10 árum og ferðamannaiðnaðurinn og kvikmyndaiðnaðurinn sem við höfum lagt hart að okkur að byggja upp á hættu á stórtapi vegna alþjóðlegs þrýstings ef við hættum ekki. Ekki einu sinni almenningur í landinu styður hvalveiðar, samkvæmt könnun Maskínu frá í fyrra eru 53% landsmanna andvíg hvalveiðum og aðeins 29% eru hlynntir þeim. Það vekur athygli að karlmenn eldri en 60 ára eru líklegastir til að styðja hvalveiðar (Maskína 2023). Það er ljóst að ráðherrar Vinstri grænna, sem vill svo til að eru konur, hafa verið að vinna að því að bæta eftirlit með hvalveiðum, herða lög og reglur og bæta stjórnsýsluna og er ekki vanþörf á því. Nýlegt dæmi um verkferla sem hefur vantað eða verið hunsaðir komu í ljós í vor þegar Katrín Oddsdóttir, lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, óskaði eftir afritum af öllum löggildingum Hvals hf. til Matvælaráðuneytisins og einungis eitt skjal komst í leitirnar sem ráðuneytið átti í fórum sínum. Það þýðir að starfsemi Hvals hf. hafi fengið að viðgangast án lögbundinnar löggildingar öll árin 2010-2018. Dýra- og náttúruverndarsamtök hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau biðla til þingsins að breyta lögum svo ráðherra hafi heimild til að grípa til viðeigandi ráðstafana komi í ljós að veiðarnar fara í bága við lög um velferð dýra. Ráðamenn þurfa að auka samráð sitt við þing og almenning, Ísland hefur tækifæri til að vera í fararbroddi þegar kemur að vernd sjávar og að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika. Fyrir tveim árum samþykkti ríkisstjórnin alþjóðlegan sáttmála um að vernda 30% af land- og hafsvæði fyrir árið 2030, það er einungis búið að vernda 0,4% af hafssvæði þegar þetta er skrifað og bara 6 ár til stefnu. Látum það verða okkar fyrsta verk til að uppfylla þann samning að banna hvalveiðar og lýsa yfir friðun hvala í efnahagslögssögu Íslands. Stöðvum hvalveiðar núna! Íslenskur undirskriftarlisti gegn hvalveiðum Alþjóðlegur undirskriftarlisti gegn hvalveiðum Hvalavinir á Facebook Myndbönd listafólks og áhrifafólks sem vill stöðva hvalveiðar Ég vil þakka Árna Finnssyni, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands fyrir aðstoð við gerð þessa samantektar og fyrir ötula og óþreytandi baráttu hans gegn hvalveiðum síðastliðin rúm 40 ár. Einnig kom samantekt IFAW og Margrétar Tryggvadóttur að góðum notum. Takk. Höfundur er talskona Hvalavina.
Skoðun Stöndum vörð um menntun, farsæld og stuðning við börnin okkar Ása Lind Finnbogadóttir skrifar
Skoðun Áskorun til ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga: Tími til að fjárfesta í framtíð barna okkar Kristján Gísli Stefánsson skrifar
Skoðun Alþjóðlegur dagur menntunar – Framhaldsfræðslan, fimmta stoð menntunar Guðjónína Sæmundsdóttir skrifar
Skoðun Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson skrifar