Innlent

Koma upp viðbragðshóp vegna á­hrifa kuldakastsins

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Verulegt kaltjón hefur verið á mörgum ræktarlöndum.
Verulegt kaltjón hefur verið á mörgum ræktarlöndum. Vísir/Vilhelm

Settur hefur verið á laggirnar sérstakur viðbragðshópur á vegum stjórnvalda vegna erfiðleika sem skapast hafa í landbúnaði vegna kuldatíðar undanfarið. Í honum sitja fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta, Bændasamtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna og lögregluembættana á Norðurlandi vestra og eystra.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu stjórnarráðsins. Þar segir að fleiri kunni að koma að verkefninu eftir því sem því vindur fram. Hópurinn fundaði nú í morgun en fyrir liggur að kuldakastið hefur þegar haft verulega neikvæð áhrif á starfsemi bænda, bæði til skemmri og lengri tíma.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að fyrsta skrefið í vinnu hópsins sé að hafa samband við bændur á þeim svæðum þar sem ástandið er hvað verst til að kortleggja og skipuleggja viðbrögð við bráðavanda eins og velferð og fóðrun búfjár sem komið hefur til vegna veðursins.

„Bændur hafa haft frumkvæði að því á ákveðnum svæðum en nauðsynlegt er að fara yfir heildarstöðuna. Langtímaáhrif eins og á uppskeru og afurðir munu ekki verða ljós fyrr en líður á sumarið, jafnvel ekki fyrr en í haust,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Verulegt kaltjón hefur orðið á ræktarlöndum á mörgum sömu svæðum og er vinna hafin vegna þess hjá bjargráðasjóði. Sérstakri síðu hefur verið komið upp af Bændasamtökunum þar sem bændur geta nálgast upplýsingar um framvindu mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×