„Það er mikil eftirvænting fyrir endurkomu Dubfire,“ segir Sam Wise, einn eigenda Radar.
„Hann hefur þegar tryllt íslenska áhorfendur tvisvar áður. Þegar hann spilaði í hinum alræmda NASA sal árið 2004 undir nafninu Deep Dish og aftur árið 2007 sem Dubfire. Hann ætlar að kveikja í dansgólfinu enn á ný á Radar þann 16. júní.“
Sam segir Dubfire þekktan fyrir nýstárlega danstónlist og kraftmikla sviðsframkomu. Hann sé afar spenntur að koma aftur til landsins.
„Ekki missa af þessu einstaka tækifæri og tryggðu þér miða á Libertyfest,“ segir Sam og að á hátíðinni komi saman rjóminn af íslenskum raftónlistarfólki.
Libertyfest var fyrst haldið árið 2022 á skemmtistaðnum Húrra. Radar er nú rekinn í sama húsnæði en Húrra var lokað síðasta sumar. Sam segir að þegar hátíðin hófst hafi hugmyndin verið að hópa saman íslenskum raftónlistarmönnum í tilefni af 17. júní, þjóðhátíðardegi Íslendinga.

„Þá fögnuðum við alla helgina með einungis raf- og danstónlist, og með einn erlendan aðila sem var franski techno kappinn UFO95. Þetta er í annað sinn sem við höldum Libertyfest en héðan í frá verður hátíðin haldin árlega. Raftónlistarsenan er að vakna aftur til lífsins og það er til nóg af hæfileikaríku tónlistarfólki.“
Sam segir að þau hafi reynt eftir fremsta megni að halda miðaverðinu í lágmarki. Miði á föstudag kostar 1.500, laugardag 2.000 krónur, sunnudag 3.900 og helgarpassi kostar 4.990 krónur.
„Þrátt fyrir að fá eina frægustu teknó stjörnu heims á viðburðinn. Svo að flestir komist að halda uppá stofndag lýðveldis Íslendinga.“
Aðrir sem koma fram á hátíðinni eru Manic State, Ghozt, MAR!A, Isfjord, Oculus, Eyvi, Elísabet, MSKR, Dubfire, Yagya, LaFontaine b2b Samwise og 2Peace b2b Útiköttur
Hægt er að kynna sér nánar dagskrá hér og kaupa miða hér.