Þórdís Björk birti myndband sem slegið hefur í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok. Þar má sjá Júlí Heiðar halda á þeirri litlu, sem virðist ekki parsátt við aðstæðurnar. Þórdís segir í gríni í samtali við Vísi að þetta sé versta hugmynd sem hún hafi fengið.
Guð blessi ljósmyndarann
Eins og greint hefur verið frá eignuðust leikararnir þá litlu um miðjan maí. Þórdís skrifar færslu á Facebook um myndbandið. Þar segist hún aðallega ekki hafa hugsað málin í gegn með Ítalíuferðina vegna þess að það sé bæði djöfullegt og nánast ómögulegt að reyna að ná passamynd af fjögurra vikna gömlu barni sem heldur ekki haus.
„Þetta gekk svo illa hjá sýslumanninum (þrátt fyrir að ég, þrír mjög meðvirkir starfsmenn og tveir 6 ára guttar værum hoppandi og syngjandi einsog vitleysingar) að við enduðum á að fara hinu meginn við götuna í passamyndatöku,“ skrifar Þórdís.
„Það reyndist alveg jafn krefjandi. Júlí tók sig þó vel út í fermingarkirtlinum á meðan ég svitnaði líkamsþyngd minni. Ljósmyndarinn fann svo til með okkur að hann gaf okkur afslátt. Guð blessi hann.“