Enski boltinn

Arne Slot fær auð­veldustu byrjunina í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot hefur allt til alls til að byrja vel sem knattspyrnustjóri Liverpool.
Arne Slot hefur allt til alls til að byrja vel sem knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Andrew Powell

Nýr knattspyrnustjóri Liverpool þarf ekki að kvarta mikið yfir erfiðri byrjun á stjóraferli sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Arne Slot er mættur til starf hjá Liverpool en hann tekur við liðinu af Þjóðverjanum Jürgen Klopp.

Það voru margir klökkir þegar Klopp kvaddi í vor en það vakti líka athygli hvað þýski stjórinn talaði vel um Slot og hversu ákaft hann hvatti stuðningsmenn Liverpool til að taka vel á móti eftirmanni sínum.

Nú hefur verið gefið leikjaplanið fyrir tímabilið og því ljóst hvað bíður hollenska stjóranum í fyrstu leikjunum.

Opta tölfræðiþjónustan tók sig til og reiknaði það út hvaða félög fá erfiðustu og auðveldustu byrjunina í haust.

Samkvæmt þeim útreikningum þá fær ekki lið í deildinni auðveldari byrjun en Liverpool þegar litið er á fyrstu fimm leikina á 2024-25 tímabilinu.

Fyrsti leikur Liverpool undir stjórn Slot er á útivelli á móti nýliðum Ipswich en fyrsti heimaleikurinn er síðan í annarri umferð á móti Brentford. Síðan taka við útileikur á móti Manchester United, heimaleikur við Nottingham Forest og loks heimaleikur á móti Bournemouth. Leikurinn á móti Manchester United er talinn vera sá langerfiðasti.

Newcastle fær næstauðveldustu byrjunina en svo koma lið Southampton, Fulham og Everton.

Brentfrod fær hins vegar erfiðustu byrjunina. Fyrsti leikur er á heimavelli á móti Crystal Palace, svo er útileikur á móti Liverpool, heimaleikur á móti Southampton, útileikur á móti Manchester City og loks útileikur á móti Tottenham í fimmtu umferð.

Næsterfiðasta byrjunin er hjá West Ham en nýliðar Ipswich Town eru í þriðja sæti. Ipswich byrjar á því að mæta Liverpool (heima) og Manchester City (úti) í fyrstu tveimur leikjunum sínum.

Arsenal er síðan í fjórða sæti yfir erfiðustu byrjunina á komandi tímabili eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×