Í maí var greint frá því að Hagkaup hefði áform um að hasla sér völl á áfengismarkaði, og myndi hefja þá vegferð sína í júní. Fréttamaður sló því á þráðinn til framkvæmdastjóra Hagkaups, sem segir að áfengissalan muni nú hefjast í ágúst.
„Þetta var örlítið meiri pappírsvinna en ég átti von á. Við erum að leggja lokahönd á kennitölur, pappíra og leyfismál,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.

„Verslunin er að verða tilbúin rafrænt. Nú erum við að missa tæknifólkið sem þarf að vera á vaktinni í sumarfrí, þannig við frestum opnuninni inn í ágústmánuð. Eins og oft er, þegar síðustu þrjú prósentin eru eftir, þá reynast þau aðeins stærri en allt á undan,“ segir Sigurður.
Ráðherrar ósammála um málið
Sigurður segir viðtökur við áformum Hagkaups um að hefja áfengissölu hafa verið „hressilegar.“
„Og miklar umræður frá ýmsum aðilum á alla kanta.“
Forsvarsmenn félagsins telji þó enn að um löglega starfsemi sé að ræða, en áhöld hafa verið uppi um hvort netsala áfengis sé lögleg. Meðal annars innan ríkisstjórnar Íslands.
Sigurður segist ekki sjá hvaða rök hnígi til þess að um ólöglega starfsemi sé að ræða.
„Fordæmin sýna það að það hafa verið reknar svona verslanir hér í þrjú ár án athugasemda. Kannski fyrirsjáanlegt að það eru ákveðnar fylkingar sem eru bæði með þessu, en við erum með sterk rök frá dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.“
Muni stýra aðgengi vel
Sigurður segir þá að aðgengi að áfengi verði betur stýrt hjá Hagkaup en víða annars staðar.
„Ég held að við séum að sinna þessum málaflokki með skýrari reglum en margir aðrir. Bæði með því að hafa áfengið ekki sýnilegt og að vera með tvöfölda auðkenningu,“ segir Sigurður, en til þess að panta áfengi hjá Hagkaup mun fólk þurfa að notast við rafræn skilríki.
Hagkaup sé þannig að ganga lengra en margir aðrir aðilar á áfengismarkaði, í því að koma í veg fyrir að einstaklingar undir lögaldri geti keypt sér áfengi.
„Svo hlökkum við bara til ágústmánaðar,“ segir Sigurður að lokum.