Leikurinn fór fram fyrir framan 7.000 áhorfendur í Pau í Suður-Frakklandi, og var fyrri vináttulandsleikurinn af tveimur á milli þjóðanna í undirbúningi fyrir ÓL. Sá seinni er á laugardaginn.
Liðin mættust í úrslitaleik HM í desember og þar höfðu Frakkar betur, 31-28, en þeir áttu aldrei séns í leiknum í kvöld. Noregur komst í 10-5 á fyrsta korterinu og var 15-11 yfir í hálfleik.
Á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks fór munurinn svo strax í tíu mörk, 23-13, og mestur varð munurinn 13 mörk.
Henny Reistad var markahæst hjá Noregi með átta mörk og Kristine Breistöl skoraði sex mörk.
Þórir kynnti ólympíuhóp sinn í gær og ljóst er að Noregur ætlar að gera betur en á síðustu Ólympíuleikum, þegar liðið náði þó bronsverðlaunum.
Norska landsliðið hefur verið saman í Frakklandi frá 22. júní og mun eins og fyrr segir spila annan vináttulandsleik við heimakonur á laugardag. Síðar í mánuðinum spilar liðið svo tvo leiki við Danmörku, í Noregi og Danmörku, áður en haldið verður á ný til Frakklands á leikana í París. Þar er fyrsti leikur Noregs við Svíþjóð 25. júlí, en liðin eru einnig í riðli með Þýskalandi, Slóveníu, Danmörku og Suður-Kóreu.