Einar segir í samtali við fréttastofu að þjóðin sé að eldast og því mikilvægt að öflugir innviðir séu til staðar til að takast á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.
„Reykjavíkurborg er þegar með þessi mál á oddinum og í skipulagsferli eru fjórir lífsgæðakjarnar með á þriðja þúsund íbúðum fyrirhuguðum. Uppbyggingaraðilar þessara lífsgæðakjarna hafa í hyggju að reisa hjúkrunarheimili á þessum tilteknu reitum og því verður áfram gott samstarf á milli borgarinnar, ríkisins og uppbyggingaraðila um uppbyggingu í þágu eldra fólks,“ segir Einar.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að gert sé ráð fyrir því að ríkið sjái alfarið um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða.
Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi greiðir ríkið að jafnað 85 prósent stofnkostnaðar á móti 15 prósent lágmarksframlagi sveitarfélags og leggur sveitarfélagið jafnframt til lóð og ber kostnað af nauðsynlegri gatnagerð.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að töluverðar tafir hafi orðið á framkvæmdum við byggingu nýrra hjúkrunarheimila undanfarin ár og að markmiðið með nýju fyrirkomulagi sé að liðka fyrir uppbyggingu og tryggja fullnægjandi viðhald á þeim eignum sem nýttar eru undir hjúkrunarheimili.