Ómar var spurður að því hvað það var sem skóp sigur hans manna í kvöld.
„Ég held að þetta hafið verið sigur liðsheildarinnar. Aðallega það. Við gáfum allt í þetta og þetta var enn einn úrslitaleikurinn í þessu alveg eins og á móti Vestra og HK og við höfum unnið alla þessa leiki.“
Fylkir var betra liðið í fyrri hálfleik og skapaði mikinn usla með hraðaupphlaupum sínum og sköpuðust tvö mörk úr þannig aðstæðum. Skagamenn náðu á móti ekki að ógna að ráði í fyrri hálfleik en leikurinn fór fram nánast á vallerhelming heimamanna sem stóðust pressuna.
„Við vorum búnir að skoða Skagamenn mjög vel fyrir leikinn og náðum svo að spila hann virkilega vel. Stúkan var svo geðveik og gaf okkur aukakraft.“
Ómar, eins og áður sagði, skoraði fyrsta markið og var hann spurður út í markið. Ómar hóf sóknina með því að gefa gullfallega sendingu út á kant á Guðmund Tyrfingsson sem komst inn í vítateig og renndi boltanum fyrir á Ómar sem kom af fítons krafti inn í markteiginn til að renna boltanum yfir línuna.
„Þetta var geðveikt. Það er alltaf gaman að skora og alltaf gaman að skora hérna fyrir framan þessa áhorfendur.“
Ómar var svo að lokum spurður að því hvort þetta hafi verið besti leikur Fylkis í sumar. Hann svaraði með spurningu.
„Já er það ekki bara?“
Blaðamaður var sammála honum.