„Þetta gerðist í rauninni bara mjög hratt. Sáum að þetta væri auglýst til sölu og fórum og kíktum á þetta,“ segir Bjarki í samtali við fréttamann. „Það var bara á mánudeginum í síðustu viku og síðan hugsuðum við að við vildum halda þessum stað gangandi og létum vaða.“
Bjarki festi kaup á Dæinn - Kaffihús og Vínbar ásamt Stefaníu Mörtu Jónasdóttur, eiginkonu sinni, en hjónin búa í Urriðaholti og hafa verið þar í rúmlega ár. Andri Snær Þorsteinsson, bróðir Bjarka, er einnig í eigandahópnum.
Langt og dýrt að fara í bæinn
Breytingar eru á dagskránni en Bjarki segir að þau vilji vinna með fólkinu í hverfinu og öðrum gestum þegar kemur að þeim. „Það skiptir mestu máli að vinna þetta með þeim og fá að vita hvað fólkið vill. Þetta er ákveðin félagsmiðstöð fyrir hverfið, frekar en einhver rekstur,“ segir hann.
„Við hlökkum gríðarlega til að taka þetta að okkur, það náttúrulega tekur smá tíma að koma öllu eins og við viljum hafa það því þetta gerðist svo hratt. Við vinnum í þessu bara hægt og rólega.“
Mikilvægt sé að halda stöðum sem þessum gangandi til að þjónusta íbúa í hverfinu. „Það er alltaf gott að vera með góða hverfisstaði, það er langt að fara í bæinn og dýrt þegar maður er að taka leigubíl.“
Ætla að gefa í
Opnunartíminn er á meðal þess sem ákveðið hefur verið að breyta. „Við erum að auka opnunartímann töluvert. Erum að skoða það að opna svo enn meira ef það er áhugi fyrir því,“ segir Bjarki. Þá segir hann að þau ætli að auka þjónustuna, í mat, drykkum og viðburðum.
„Við ætlum klárlega að bæta helling við viðburðina, erum nú þegar búnir að bóka nokkra sem verða tilkynntir síðar. Síðan ætlum við að bæta vel í matinn, bjóða upp á heitar máltíðir bæði í hádeginu og kvöldin.“
Þá sé í myndinni að bjóða upp á svokallaðan „mömmumat“ í hádeginu sem gleður eflaust fólkið sem vinnur í hverfinu. Hugmyndin sé að vera með „góðan mat á góðu verði.“