Ummælin lét forsetinn falla eftir að vinstri hreyfingin Nouveau Front Populaire lagði til að Lucie Castes, tiltölulega óþekktur hagfræðingur og yfirmaður fjármála og innkaupa hjá Parísarborg, yrði næsti forsætisráðherra.
Macron var spurður út í valið í viðtali við France 2 og svaraði þá að valið á forsætisráðherranum sem slíkum væri ekki málið.
„Nafnið er ekki málið. Málið er: Hvaða meirihluta er hægt að mynda á þinginu?“ svaraði Macron.
Öll orka færi nú í Ólympíuleikana og ekkert hægt að gera í málum fyrr en um miðjan ágúst, að þeim loknum, til að forðast að skapa „ringulreið“.
Forsetinn sagði einnig að það væri enn algjörlega óvíst hvaða flokkur eða hreyfing yrði í stöðu til þess að tilefna forsætisráðherrra.
Viðbrögð Macron hafa vakið reiði meðal flokkanna innan NFP og Marine Tondelier, leiðtogi Les Écologistes, sakaði forsetann um að vera í afneitun. NFP væri sú hreyfing sem hefði notið mests stuðnings í kosningunum og forsetinn gæti ekki leyft sér að koma í veg fyrir að stefnu hennar yrði hrint í framkvæmd.
Þá sakaði Manuel Bompard, einn af leiðtogum Óbeygðs Frakklands, Macron um að freista þess að hunsa niðurstöður þingkosninganna. „Þetta er óbærileg afneitun lýðræðisins,“ saðgi hann. Forsetinn hefði ekki neitunarvald gegn vilja þjóðarinnar.