Framkvæmdastjóri breska ólympíusambandsins gagnrýnir mötuneytið sem Frakkar hafa útbúið harðlega og segir að hrátt kjöt hafi verið borið fram á miðvikudagskvöld.
„Stóra málið er að það er ekki góður matur, okkur var meira að segja boðið hrátt kjöt og svo er ekki nóg af ákveðnum mat sem íþróttafólk þarf. Egg, kjúklingur og kolvetni eru af skornum skammti.“
Þetta verður án efa mikið áfall fyrir Frakka, sem stæra sig mikið af matargerð sinni og montuðu sig af því í aðdraganda Ólympíuleikanna að Michelin-stjörnukokkar hafi verið fengnir til að útbúa matseðlana.
Matarskorturinn skýrist að mörgu leyti af strangri reglugerð sem þeir kokkar settu fyrir mötuneytið í Ólympíuþorpinu. Rúmlega helmingur réttanna eru grænmetisréttir, tuttugu prósent þeirra þurfa að vera lífrænt ræktaðir og öll hráefni skulu koma frá Frakklandi.
Franskir bændur einfaldlega anna ekki eftirspurn íþróttafólksins, sem sækir ekki eins mikið í grænmetisrétti og vonast var eftir.