Veður

Við­varanir í gildi og vinda­samt og blautt fram­undan

Kjartan Kjartansson skrifar
Áfram er spáð votu veðri á landinu næstu daga, að minnsta kosti á köflum.
Áfram er spáð votu veðri á landinu næstu daga, að minnsta kosti á köflum. Vísir/Vilhelm

Gular viðvaranir vegna hvassviðris tóku gildi við Breiðafjörð í nótt og við Faxaflóa og á Suðurlandi í morgun. Reikna má með vindasömu og blautu veðri en nokkuð hlýju næstu daga.

Viðvaranirnar á vestanverðu landinu gilda fram á kvöld. Spáð er allshvassri eða hvassri suðaustan- og austanátt með vindhviðum allt að þrjátíu metrum á sekúndu í dag. Varað er við ferðm á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Hægara veðri er spáð norðan- og austanlands en draga á úr vindi í kvöld. Gert er ráð fyrir lítilsháttar rigningu eða súld af og til sunnanlands en bæta á í úrkomu síðdegis. Þurrt og bjart norðan heiða með hita á bilinu tíu til tuttugu stig, hlýjast fyrir norðan.

Áfram verður austlæg átt á morgun, fimm til þrettán metrar á sekúndu og rigning í flestum landshlutum. Talsverðri úrkomu er spáð suðaustanlands fram eftir degi. Birta á til sunnanlands með skúrum seinnipartinn en víða á að létta til á Norður- og Austurlandi annað kvöld.

Lægð á vestanverðu Grænlandshafi stýrir nú veðrinu næstu daga samkvæmt því sem kemur fram í hugleiðingum veðufræðings á vef Veðurstofu Íslands. Austlægar átti verða ríkjandi og væta með köflum, séstaklega suðaustantil.

Á laugardag um verslunarmannahelgina á lægðin að fjarlægjast landið og þá ætti að draga úr úrkomu og vindi. Það er þó skammgóður vermir því útlit er fyrir að önnur djúp lægð taki sér stöðu suður af landinu á frídegi verslunarmanna og líkur þá á að veður versni aftur með auknum vindi og úrkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×