Sport

Kín­verjar unnu hvert einasta gull í dýfingum

Siggeir Ævarsson skrifar
Lian Junjie og Yang Hao samhæfðir
Lian Junjie og Yang Hao samhæfðir vísir/Getty

Kínverjar skráðu sig á blöð Ólympíusögunnar í dag þegar Cao Yuan tryggði sér gullverðlaun í dýfingum af tíu metra palli en sigur hans þýðir að Kína vann öll átta gullverðlaunin sem í boði voru í dýfingum.

Aldrei áður í sögu Ólympíuleikanna hefur það gerst að ein og sama þjóðin vinni öll gullverðlaunin í dýfingum. Flest gullverðlaunin í ár unnu Kínverjar með miklum yfirburðum eins og í tilfelli Quan Hongchan sem fékk fullkomnar einkunnir fyrir sínar dýfingar.

Það var því ákveðin pressa á Cao Yuan og Yang Hao sem kepptu í dag og ekki minnkaði pressan þegar Yang Hao átti misheppnaðar dýfur en Cao Yuan lét það ekki á sig fá og innsiglaði yfirburði Kínverja á leikunum í ár.

Þetta voru fjórðu Ólympíuleikarnir í röð þar sem Cao Yuan vinnur til gullverðlauna sem gerir hann að sigursælasta dýfingakappa allra tíma ásamt Greg Louganis en þetta var jafnframt í fyrsta sinn síðan 1988 sem karlkyns keppandi í dýfingum vinnur gull af hæsta bretti tvo Ólympíuleika í röð og það var einmitt áðurnefndur Greg Louganis sem gerði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×