Enski boltinn

Amazon vill kaupa heimildarþættina um síðasta tíma­bil Klopp

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jurgen Klopp kvaddi Liverpool eftir síðasta tímabil og hyggst ekki þiggja annað starf. 
Jurgen Klopp kvaddi Liverpool eftir síðasta tímabil og hyggst ekki þiggja annað starf.  James Baylis - AMA/Getty Images

Streymisþjónustan Amazon Prime stendur nú í viðræðum við enska knattspyrnufélagið Liverpool um kaup á heimildarþáttum sem voru framleiddir á síðasta tímabili, um lokamánuði Jurgens Klopp í starfi.

Framleidd var átta þátta sería, tökur hófust síðasta desember og útboð um sýningarrétt þáttanna hófst í janúar, þegar Klopp tilkynnti að hann myndi láta af störfum eftir tímabilið.

Hann var sjálfur mjög skeptískur á slíka heimildarþætti og hótaði á sínum tíma að hætta ef eigendur Liverpool myndu gera félagið að viðfangsefni.

Svo virðist sem honum hafi snúist hugur á síðasta tímabilinu sem stjóri því Klopp veitti framleiðendum fullt aðgengi að allri starfsemi Liverpool þar til hann hætti.

Disney+ hefur áður boðið í sýningarréttinn en þær viðræður hafa staðnað og Amazon Prime hefur lagt fram tilboð, sem The Athletic segir að hljóði upp á tugi milljóna punda.

Auk þess að bjóða í heimildarþættina um Klopp er Amazon að framleiða heimildarmynd um Sir Kenny Dalglish sem mun koma út í byrjun næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×