Grímur segir það hluta af rannsókn lögreglu að leiða í ljós aðdraganda og ástæðu árásarinnar og tengsl fólksins. Hann segir ekki sé tímabært að tjá sig um það.
Drengurinn sem grunaður er um árásina hefur að sögn Gríms ekki áður komið við sögu hjá lögreglu. Hann er í gæsluvarðhaldi og er í einangrun í fangelsinu að Hólmsheiði. Drengurinn er 16 ára gamall.
„Þetta er mjög alvarlegt mál. Það eru þrír stungnir þarna og eftir er einn lífshættulega slasaður. Þetta er mjög alvarleg árás.“
Ungmennin sem urðu fyrir árásinni voru öll flutt á slysadeild í kjölfar árásarinnar. Stúlkan sem drengurinn stakk er enn í lífshættu og er ástand hennar alvarlegt að sögn Gríms.
Grímur segir lögreglu hafa rætt við vitni í gær og í dag og sé enn að reyna að afla gagna sem tengjast málinu.
„Það voru mjög margir í miðborginni, eins og gefur að skilja, á þessum tíma. Þetta er laust eftir flugeldasýninguna á menningarnótt. Það er misjafnt hverju fólk varð vitni að,“ segir Grímur.
Það hafi ekki margir orðið vitni að árásinni sjálfri en margir séð orðið vitni að því sem gerðist á eftir og viðbragði viðbragðsaðila.