Nefndin birti í dag fjóra úrskurði sína þar sem fram kemur að beiðnum um karlmannsnafnið Josef og kvenmannsnafnið Hennie hafi verið hafnað.
Um Josef segir að nafnið standist ekki skilyrði sem sett er um að ekki megi brjóta í bága við íslenskt málkerfi.
„Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Líta verður á að Josef sé ritháttarafbrigði af hinu rótgróna nafni Jósef sem stríði gegn hefð við ritun þess,“ segir í úrskurðinum.
Varðandi beiðnina um nafnið Hennie segir að í málinu reyni á skilyrði um að nöfn skuli rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Hennie sé ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem samstafan ie komi ekki fyrir í ósamsettum orðum. Þá er hið umbeðna nafn ritháttarafbrigði nafnsins Henný, sem þegar er á mannanafnaskrá. Þannig er aðeins hægt að samþykkja það að hefð sé fyrir þessum rithætti nafnsins.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að að svo sé ekki þar sem enginn beri nafnið Hennie í þjóðskrá, auk þess að nafnið komi heldur ekki fyrir í manntölum frá 1703 til 1920. Telst því ekki hefð fyrir umbeðnum rithætti nafnsins og því hafnað.