Fótbolti

Tíma­bilið byrjar brösug­lega hjá Real Madrid

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kylian Mbappé fékk ekki tækifæri til að skora fyrsta deildarmarkið. Vinicíus Juníor steig á punktinn.
Kylian Mbappé fékk ekki tækifæri til að skora fyrsta deildarmarkið. Vinicíus Juníor steig á punktinn. Angel Martinez/Getty Images

Spánarmeistarar Real Madrid hafa ekki byrjað tímabilið í spænsku úrvalsdeildinni eins og þeir óskuðu sér. Liðið sótti stig gegn UD Las Palmas með 1-1 jafntefli í kvöld eftir að hafa lent undir.

Alberto Moleiro kom Las Palmas mönnum yfir á fimmtu mínútu eftir undirbúning Oliver McBurnie.

Staðan hélst svoleiðis allt þar til á 69. mínútu þegar Vinicíus Jr. jafnaði metin af vítapunktinum fyrir Real Madrid.

Þeim tókst ekki að setja sigurmarkið þrátt fyrir þrálátar tilraunir til þess og 1-1 jafntefli varð niðurstaðan.

Real Madrid hefur aðeins fengið 5 stig úr fyrstu þremur leikjunum. Þeir gerðu jafntefli við Mallorca, sem hafnaði í 15. sæti deildarinnar á síðasta tímabili, unnu nýliða Real Valladolid en gerðu svo jafntefli við UD Las Palmas í kvöld, liðið sem endaði í 16. sæti deildarinnar á síðasta tímabili.

Þá hefur Kylian Mbappé ekki enn komist á blað í deildinni en hann skoraði vissulega í frumraun sinni fyrir félagið þegar leikið var um Ofurbikar UEFA.

Barcelona hefur byrjað tímabilið best allra liða í deildinni og unnið þrjá af þremur leikjum hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×