Forsvarsmenn hópsins segja að áður en að söngurinn hófst hafi hópurinn sent utanríkisráðuneytinu bréf þar sem aðstæðum á Gasa er lýst og segja brýnt að Ísland, og alþjóðasamfélagið allt, geri beiti sér í þágu Palestínumanna.
Framgangur Ísraels grafi undan öryggi okkar allra
Meðal söngvara kórsins að þessu sinni voru þjóðþekktir listamenn á borð við Pál Óskar Hjálmtýsson söngvara og Matthías Tryggva Haraldsson fyrrum söngvari Hatara. Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir teiknarar voru einnig í kórnum ásamt Almari Atlasyni gjörningalistamanni sem er iðulega kenndur við kassann.

„Alþjóðasamfélaginu, þar á meðal Íslandi, ber skylda til þess að gera allt sem í valdi þeirra stendur til þess að stöðva þjóðarmorðið. Sjálfstæði Íslands er háð því að önnur lönd fari eftir alþjóðalögum. Ef Ísrael fær að halda áfram þjóðarmorði sínu á Palestínumönnum mun það hafa grafalvarlegar afleiðingar fyrir framtíð alþjóðalaga og grafa undan öryggi okkar allra,“ er meðal þess sem segir í yfirlýsingu samstöðukórsins.
Þrjár kröfur

Í yfirlýsingunni komu fram þrjár kröfur sem beint var að utanríkisráðuneytinu sérstaklega og ráðherra þess, Þórdísi Kolbrúnu R. Gísladóttur. Hópurinn krefst þess að Ísland styðji kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríki fyrir brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn þjóðarmorði, að það slíti stjórnmálasamstarfi við Ísrael og hefji samnorrænt ákall um viðskiptaþvinganir á hendur Ísraelum.
Kórinn á sér, að sögn forsvarsmanna hans, norska fyrirmynd sem sungið hefur fyrir utan ráðuneytin í Ósló frá því í vor og hafa fengið að ræða við norska ráðherra um ástandið í Palestínu og hvatt þá til aðgerða.
„Það er von Samstöðukórs fyrir frjálsri Palestínu að ná til ráðherra á þennan hátt og brýna fyrir þeim að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stöðva þjóðarmorðið,“ segja forsvarsmenn hópsins.
Þeir segja jafnframt að kórinn hafi komið að læstum dyrum í dag en að hluti starfsfólks ráðuneytisins hafi safnast saman við glugga sem vísaði að kórnum og hlýtt á yfirlýsinguna og sönginn.