Björgvin Karl, þjálfari FHL og Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, voru gestir í nýkasta þætti Bestu markanna á Stöð 2 Sport á laugardaginn síðastliðinn. Báðir stýrðu þeir liðum sínum upp úr Lengjudeildinni og mæta því til leiks í Bestu deild kvenna á næsta tímabili.
Mergur málsins. Rót umræðnanna sem sköpuðust í Bestu mörkunum, sem eru í umsjón Helenu Ólafsdóttur og Mistar Eiríksdóttur, felst í misræminu í fjölda liða í Bestu deildum karla og kvenna. Á meðan að tólf lið skipa Bestu deild karla eru aðeins tíu lið sem skipa Bestu deild kvenna.
Helena spurði þá Björgvin og Óskar Smára að því hvort þeir væru hlynntir því að liðum yrði fjölgað í Bestu deild kvenna.
„Ég er búinn að vera talsmaður þess mjög lengi,“ svaraði Björgvin Karl. „Það er ósanngjarnt gagnvart stelpum í fótbolta að það skuli ekki vera sama fyrirkomulag karla og kvenna megin. Það hefur verið einhver hópur, á vegum KSÍ hreinlega, sem vill frekar fækka liðum og á sama tíma búa til sterkari lið.
Ég vil fjölga liðunum í Bestu deild kvenna, þannig að það sé jafnrétti í Bestu deildinni. Því það er alveg ömurlegt að sjá dæmi um lið sem þarf að leika í neðri hluta deildarinnar, eftir skiptinguna í kjölfar hinnar hefðbundnu deildarkeppni, og fær aðeins þrjá leiki. Fjölgum í deildinni sem fyrst. Helst á morgun.
Óskar Smári, þjálfari Fram, tók undir með kollega sínum.
„Að það séu tíu lið í þessari deild er bara algjör skandall. Það eiga að vera tólf lið í þessari deild. Við eigum að fá fleiri leiki. Við værum betri í fótbolta á landsvísu með því að vera með tólf lið í deildinni.“
Umræðuna, sem myndaðist um fjölgun liða í Bestu deild kvenna, í Bestu mörkunum má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.