Dómstóllinn hafnaði beiðni Combs um að vera látinn laus gegn tryggingu.
Combs hefur verið ákærður fyrir að hafa rekið skipulagða glæpastarfsemi frá að minnsta kosti 2008, þar sem eiturlyf og ofbeldi voru notuð til að þvinga konur til að „uppfylla kynferðislegar langanir“ rapparans, að sögn saksóknara.
Ef hann verður fundinn sekur á Combs yfir höfði sér að minnsta kosti fimmtán ára fangelsi en allt að lífstíðarfangelsi.
Samkvæmt gögnum málsins er Combs sakaður um að hafa skipulagt „Freak Offs“; nokkurs konar gjörning þar sem þolendur voru látnir neyta fíkniefna og áfengis í þeim tilgangi að gera þau „samvinnuþýð“ í kynlífsathöfnum.
Þá er rapparinn sagður hafa þvingað, misnotað og hótað konum til að fá þær til að uppfylla langanir hans og til að koma í veg fyrir að hegðun hans kæmist upp á yfirborðið.
Saksóknarinn Damian Williams sagði á blaðamannafundi í gær að við leit á heimilum Combs hefðu fundist skotvopn, skotfæri og yfir þúsund flöskur af sleipiefni. Þá hefðu fundist þrír hálfsjálfvirkir rifflar hvers raðnúmer hefðu verið útmáð.
Mögulega væri von á fleiri kærum á hendur tónlistarmanninum.