Enski boltinn

Banda­ríkja­menn að eignast Everton

Sindri Sverrisson skrifar
Everton tókst að halda sér uppi í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, þrátt fyrir að stig væru dæmd af félaginu, en er aðeins með eitt stig það sem af er nýrri leiktíð.
Everton tókst að halda sér uppi í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, þrátt fyrir að stig væru dæmd af félaginu, en er aðeins með eitt stig það sem af er nýrri leiktíð. Getty/James Gill

Bandaríska félagið The Friedkin Group hefur komist að samkoulagi við Farhad Moshiri, eiganda Everton, um kaup á 94% hlut í enska knattspyrnufélaginu.

Everton greinir frá samkomulaginu á miðlum sínum í dag. Kaupin velta núna á samþykki ensku úrvalsdeildarinnar og enska knattspyrnusambandsins, auk fjármálayfirvalda.

„Við erum ánægð með að hafa náð samkomulagi um að verða forsjáraðilar þessa goðsagnakennda félags. Nú einbeitum við okkur að því að fá nauðsynleg samþykki til að ganga frá kaupunum,“ sagði talsmaður The Friedkin Group í tilkynningu og bætti við:

„Við hlökkum til að veita félaginu stöðugleika og fólki innsýn í framtíðarsýn okkar, sem meðal annars snýr að því að ljúka gerð nýja Everton leikvangsins við Bramley-Moore bryggjuna.“

Dan Friedkin, stjórnarformaður The Friedkin Group, er einnig eigandi ítalska félagsins Roma. Hann er metinn á 5,7 milljarða punda samkvæmt Forbes, eða yfir 1.000 milljarða króna.

Everton hefur glímt við fjárhagsörðugleika síðustu misseri og stig voru tekin af liðinu á síðustu leiktíð, vegna brota á fjármálareglum. Áætlað er að liðið byrji að spila á nýja vellinum sínum á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×